Miðað við það magn sem áætlað er að þurfi að farga vegna riðusmits á Norðurlandi vestra má búast við að förgunin taki 10 til 12 vikur. Þetta kemur fram í ályktun frá Umhverfisstofnun.

Matvælastofnun og héraðsdýralæknir óskuðu eftir leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun um förgun fjár og riðusmitaðs úrgangs frá sauðfjárbúum.

Ritusmit hefur greinst á fjórum bæjum í Tröllaskagahólfi, þ.e. Stóru Ökrum, Syðri Hofdölum, Grænumýri og Hofi. Matvælastofnun telur að farga þurfi um 2400 fjár vegna þess.

Kalka er eina brennslustöðin á landinu.
Fréttablaðið/Pjetur Sigurðsson

Ljóst er að málið verður flókið sökum magns og vegna þess að einungis ein brennslustöð er til á landinu en hún hefur ekki afkastagetu til að taka á móti svona miklu magni í einu. Hægt væri að taka á móti úrganginum til brennslu í nokkrum áföngum.

Ekki er hægt að brenna hræin sér en Ingþór Karlsson, rekstrarstjóri brennslu á Kölku, segir efnið ekki brenna og því þurfi að blanda því við annað rusl. Kalka vill alls ekki leggja það á starfsfólk að brenna úldið kjöt í svona miklu magni og er krafist þess að sauðféð komi ferskt á stöðina.

Skoða urðun í Stekkjarvík

Samkvæmt reglugerð þarf að brenna allt fé á jörðum þar sem smit greinist ásamt öllum úrgangi og fóðri. Í ljósi magns og stöðunnar hefur Matvælastofnun velt upp þeim möguleika að senda úrganginn til urðunar á urðunarstað Norðurár bs. í Stekkjarvík.

Ráðherrar gætu veitt undantekningu og heimilað urðun með vísan til neyðarsjónarmiða samkvæmt ályktun Umhverfisstofnunar. Verið er að skoða málin í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og undirstofnunum þess í dag.

Urðunarstaðurinn í Stekkjarvík er rekin af Norðurá bs. sem er byggðasamlag sveitarfélaga í Skagafirði og Austur Húnavatnssýslu. Þjónustusvæði urðunarstaðarins er þó mest allt Norðurland.