Varnar­mála­ráð­herra Dan­merkur segir það geta tekið allt að fjór­tán daga fyrir rann­sóknar­fólk að komast niður að gas­leiðslunum Nord Stream 1 og 2 sem byrjuðu að leka gasi í gær. Þrýstingur frá leiðslunum þurfi fyrst að lækka enn frekar áður en rann­sakað er leiðslu­arnar og hvað gæti hafa valdið því að þær láku.

„Stór sprenging hefur átt sér stað og þess vegna mun taka tíma áður en við komumst þangað niður,“ sagði Martin Bødskov, varnar­mála­ráð­herra Dan­merkur, í samtali við danska ríkisútvarpið. Hann fundaði með fram­kvæmda­stjóra NATO, Jens Stol­ten­berg, í dag.

Danska ríkisstjórnin hélt blaðamannafund í gær þar sem þau upplýstu almenning um lekann.
Fréttablaðið/EPA

Telja skemmdarverk vera líklegasta skýringin

Ó­víst er hvað olli því að gas streymdi úr gas­leiðslunum tveimur en dönsk yfir­völd telja að um skemmdar­verk sé að ræða, en mæli­stöðvar í Dan­mörku og Sví­þjóð námu sprengingar á svæðinu um svipað leyti og lekinn kom í ljós.

Bødskov sagðist ekki vera viss um hvort ein­hvern tímann verði komist til botns á því hver gæti hafa gert þetta, en hann sagði dönsku ríkis­stjórnina ætla að gera hvað sem þau geta til að komast að því.

Fundur varnar­mála­ráð­herrans og fram­kvæmda­stjóra NATO var á­kveðinn áður en leiðslurnar sprungu, en eðli­lega snerist fundur þeirra tveggja að mestu um lekann.

Bødskov sagði Stol­ten­berg hafa jafn miklar á­hyggjur af málinu og ríkis­stjórn Dan­merkur. Hann sagði að fullur stuðningur væri frá NATO að komast að því hvað átti sér stað rétt áður en leiðslurnar fóru að leka.

Danska ríkis­stjórnin fékk engar við­varanir

Bødskov sagði dönsku ríkis­stjórnina ekki hafa fengið neinar við­varanir um sprengingarnar við gas­leiðslurnar, en orð­rómur er uppi um að leyni­þjónusta Banda­ríkjanna, CIA, hafi varað ríkis­stjórn Þýska­lands við að árás væri yfir­vofandi á gas­leiðslurnar.

Hann sagði að eðli­lega yrði spennan á Eystra­saltinu meiri eftir þetta at­vik.