Gera má ráð fyrir því að það muni taka lengri tíma að stöðva útbreiðslu COVID-19 núna en í vor. Næstu dagar munu skera úr um það hvort farið verði niður í 50 eða 20 manna samkomubann líkt og gert var á hápunkti faraldursins. Það verður þó ekki gert nema brýna nauðsyn beri til.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi í dag.

Hann segir að faraldurinn hér á landi sé nú á svipuðum stað og í mars þegar kórónaveiran náði fyrst flugi í samfélaginu.

Jákvætt að ekki sé um að ræða margar ólíkar gerðir

„Það sem er öðruvísi núna og í vetur er að þá vorum við eiga við mikið flæði af veirunni inn á sama tíma. Nú erum við að fást við eina veiru sem er greinilega búin að grafa um sig hér og stinga upp kollinum víða. Þannig má kannski gera ráð fyrir því að það taki aðeins lengri tíma að stoppa hana af.“

Þó sé ánægjulegt að margar gerðir veirunnar virðist ekki að vera að koma inn í landið.

„Við erum ekki að sjá að landamærin séu að leka. Skimunin á landamærunum er greiniega að skila árangri og við erum búin að finna þar 30 einstaklinga sem við erum búin að loka af. Ég hefði ekki viljað sjá hér 30 mismunandi tegundir stinga upp kollinum eins og þessi eina veira er að gera.“

Gæti þurft að grípa til sömu takmarkana og á hápunkti faraldursins

„Þannig að þetta verður kannski svolítið lengri barátta, svolítið öðruvísi en aðferðirnar sem við þurfum að beita eru þær sömu í raun og veru. Okkar bíður það vekefni að reyna að fá alla með.“

Enn fremur segir Þórólfur að næstu dagar í þróun faraldursins verði afdrifaríkir.

„Ef að það sýnir sig núna á allra næstu dögum að við erum að fara að fá enn þá meiri vöxt í þetta þá held ég að við verðum að grípa til þessara hörðu aðgerða sem við þurftum að fara í vetur, eða ég þarf allavega að leggja það til og við þurfum svo að sjá hverju það skilar.“

Hann segir það aldrei hafa verið sannara en núna að næstu dagar skeri úr um það hvort þurfi að fara niður í 50 eða 20 manna samkomubann líkt og í vetur. Ljóst sé að slíkt yrði gríðarlegt áfall fyrir mjög marga og því ekki gripið til þess nema brýna nauðsyn beri til.

Fréttin hefur verið uppfærð.