Charlotta Oddsdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, segir að núverandi starfsumhverfi þeirra sem sinna dreifbýlum svæðum sé óviðunandi og samningar úreltir.

Eru þetta svæði á borð við Ísafjörð, Dalabyggð, Húsavík og Egilsstaði.

Charlotta segir að dýralæknaskortur sé í landinu og samningar séu ekki nægilega háir til að halda fólki á þessum svæðum. „Þetta eru verktakagreiðslur og dýralæknar eru að fá rúmlega 400 þúsund krónur í laun. Samt eru þeir á vakt allan sólarhringinn, allt árið um kring og þurfa sjálfir að finna afleysingar.“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað hóp til þess að leggja til breytingar á kerfinu en Charlotta óttast að það takist ekki áður en samningar renna út í lok október. Þegar er búið að bjóða dýralæknum óbreytta samninga en óvíst hvort þeir taki þeim. Þá gæti orðið dýralæknalaust á þessum svæðum.

„Það er skelfileg tilhugsun,“ segir Charlotta. „Þá verður mjög langt fyrir bændur að sækja þjónustu, eða ekki hægt. Tilkostnaður verður meiri og samgöngur eru oft óvissar.“