„Það gæti jafn­vel farið svo að hann hangi þurr í borginni um helgina,“ segir Óli Þór Árna­son, veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands, spurður um helgar­veðrið í borginni. Ó­venju vætu­samt hefur verið í Reykja­vík í sumar og mældist úr­koma í borginni 72,6 milli­metrar í júlí, það er 45 prósentum um­fram meðal­lag.

Óli segir að hiti gæti náð 14-15 stigum þegar mest lætur í Reykja­vík í dag. „En það verður sunnan­átt og sunnan­áttir eru oftast með mikinn raka í sér, því er ó­lík­legt að það haldist alveg þurrt. En ég hugsa að margir borgar­hlutar fái enga úr­komu.“

Þá segir Óli lík­legt að sunnu­dagurinn verði meira og minna þurr, þó gæti komið síð­degis­skúr. „En þá verður norðan­átt og í henni falla skúrir síður nær ströndinni og frekar í efstu byggðum.“