Land­ris upp á rúma 7 senti­metra hefur mælst í Öskju og er lík­legasta skýringin talin vera sú að kvika sé að safnast fyrir á 2-3 kíló­metra dýpi. Ríkis­lög­reglu­stjóri í sam­ráði við Lög­reglu­stjórann á Norður­landi Eystra hefur lýst yfir ó­vissu­stigi vegna þessa.

Að­spurður um hvort að Ís­lendingar gætu fengið að upp­lifa tvö eld­gos á sama árinu segir Þor­valdur Þórðar­son, eld­fjalla­fræðingur, það vera mögu­legt en slíkt hefur ekki gerst hér á landi í eina og hálfa öld.

„Það er alveg mögu­leiki, það gæti farið svo og jafn­vel fleiri,“ segir Þor­valdur og nefnir í því sam­hengi að ýmsir telji að eld­stöðvar á borð við Heklu, Gríms­vötn og Kötlu séu til­búnar að gjósa.

Síðast gaus í Öskju árið 1961 og segir Þor­valdur það hafa verið meðal­stórt basalt­gos sem bjó til all­myndar­legt hraun og var með fal­lega kviku­stróka­virkni. Hann segir Kötlu til dæmis vera löngu komna á tíma en hún gaus síðast ör­laga­árið mikla 1918.

„En hvort hún er til­búin til að fara að gjósa er kannski svo­lítið á­lita­mál. Gríms­vötn þau eru náttúr­lega búin að þenjast og lyfta sér hærra heldur en þegar síðasta gos var og sama gildir um Heklu. Út frá þeim mælingum þá eru þessi eld­fjöll alveg til­búin í það að fara að gjósa en hvort þau gjósi það er allt annar hand­leggur,“ segir Þor­valdur.

Þá bætir hann við að vísinda­menn reynist ekki alltaf sann­spáir enda séu eld­fjöll ó­út­reiknan­leg eins og sést hefur í gosinu í Geldinga­dölum.

„Við náttúr­lega erum með á­kveðnar mælingar og eftir­lit og reynum að lesa í eld­fjallið út frá þeim. En svo náttúr­lega eru okkar mælingar allar saman tak­markaðar að sumu leyti og eld­fjöllum er svo sem alveg sama um okkar mælingar, þau eru ekkert að hegða sér í sam­ræmi við þær.“

Öskjuvatn árið 2014.
Fréttablaðið/GVA

Síðast tvö eld­gos á einu ári 1875

Ef eld­gos hefst í Öskju á næstunni er ljóst að um stór­við­burð væri að ræða því ekki hafa tvö eld­fjöll gosið á Ís­landi á sama árinu frá því 1875, þegar gaus í Öskju og Sveina­gjá. Þar áður höfðu tvö gos átt sér stað á sama ári þegar gaus í Eyja­fjalla­jökli og Vatna­jökli 1823.

„Það er mjög erfitt að segja til að það náttúr­lega en ef að risið heldur á­fram á þessum hraða sem það er þá held ég það að sé nú frekar stutt í það. Þá erum við kannski að tala um ein­hverja daga og hugsan­lega vikur. En það er náttúr­lega alltaf þetta ef. Ef að risið heldur á­fram á sama hraða eða það hægist á því þá dregur náttúr­lega úr líkunum, þá gæti að­dragandinn að næsta gosi orðið að­eins lengri.“

Þor­valdur segir það vera alveg ljóst að Askja sé smám saman búin að vera að undir­búa sig fyrir gos undan­farin ár. Í því sam­hengi nefnir hann að ísinn á Öskju­vatni hafi bráðnað árið 2012 vegna aukinnar hvera­virkni við botn vatnsins. Mælst hafi aukið hita­flæði í gegnum æðarnar undir niðri sem þýði að hugsan­lega sé kvika að færa sig til í kerfinu. Þá sé berg­hlaupið 2014 sem féll úr Suður­botnum niður í Öskju­vatn og olli stórri flóð­bylgju einnig partur af þessum að­draganda.

„Þannig það eru búin að vera teikn á lofti í næstum því níu ár að það sé eitt­hvað fara að gerast í Öskju,“ segir hann.

Að­spurður um hvernig gosi mætti búast við í Öskju nefnir Þor­valdur sprengi­gos sem mögu­leika. Slík gos eiga sér stað þegar heit kvika kemst í snertingu við vatn og kælir hana svo hún verður að ösku áður en hún komst upp úr jörðu. Komist askan upp á yfir­borðið getur hún þeyst langar leiðir eins og gerðist þegar Askja gaus 1875 en þá dreifðist aska um allt Fljóts­dals­hérað og Aust­firði, frá Borgar­firði suður til Fá­skrúðs­fjarðar.

Þor­valdur segir slíkt gos geta valdið veru­legu gjósku­falli í nokkra tugi ef ekki hundrað kíló­metra fjar­lægð sem gæti or­sakað tjón á gróðri og ó­þægindum en þau séu þó að­eins hættu­leg þeim sem hætta sér nærri eld­stöðinni.

„Þetta er ekki lífs­hættu­legt nema fyrir þá sem eru mjög ná­lægt eld­stöðinni“ segir hann.

Gígurinn í Geldingadölum í júlí 2021.
Fréttablaðið/Ernir

Ekki tíma­bært að lýsa yfir gos­lokum í Geldinga­dölum

Í gær birtust fregnir af því að gígurinn í Geldinga­dölum væri tómur en Þor­valdur telur þó ekki tíma­bært að lýsa yfir enda­lokum gossins sem hefur nú staðið yfir í tæp­lega hálft ár.

„Ég held ekki. Það eru enn þá smá ó­róa­púlsar sem koma þarna. Raunar ekki miklir en það náttúr­lega þýðir að það eru ein­hver af­köst í gangi þarna undir sem þýðir að það er fersk kvika að koma inn,“ segir Þor­valdur og bætir við að í gær hafi sést glóandi hraun í hraun­pípum sem þýðir að það sé enn þá hraun að flæða þar um.

„Þannig ég held að þetta sé enn þá í gangi en það hefur slökkt á allri yfir­borðs­virkni og ó­róinn hann hefur dottið niður þannig við erum ekki með þessar stóru gas­bólur að myndast sem streyma út alltaf í þessum hrinum. En ég held að það sé ekki tíma­bært að kalla á gos­lok, ekki enn þá. Það getur vel verið að þetta sé at­burða­rás sem leiði til gos­loka, það er ekki úti­lokað,“ segir Þor­valdur að lokum.

Að­spurður um hvort það sé ekki spennandi að vera eld­fjalla­fræðingur á tímum sem þessum segir Þor­valdur það svo sannar­lega vera.

„Það er bara mjög gaman að fá að fylgjast með svona og hvernig þessi at­burða­rás sýnir sig á hverjum tíma, það er margt sem hefur komið manni á ó­vart og sem maður bjóst ekki endi­lega við.“