Landris upp á rúma 7 sentimetra hefur mælst í Öskju og er líklegasta skýringin talin vera sú að kvika sé að safnast fyrir á 2-3 kílómetra dýpi. Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi Eystra hefur lýst yfir óvissustigi vegna þessa.
Aðspurður um hvort að Íslendingar gætu fengið að upplifa tvö eldgos á sama árinu segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, það vera mögulegt en slíkt hefur ekki gerst hér á landi í eina og hálfa öld.
„Það er alveg möguleiki, það gæti farið svo og jafnvel fleiri,“ segir Þorvaldur og nefnir í því samhengi að ýmsir telji að eldstöðvar á borð við Heklu, Grímsvötn og Kötlu séu tilbúnar að gjósa.
Síðast gaus í Öskju árið 1961 og segir Þorvaldur það hafa verið meðalstórt basaltgos sem bjó til allmyndarlegt hraun og var með fallega kvikustrókavirkni. Hann segir Kötlu til dæmis vera löngu komna á tíma en hún gaus síðast örlagaárið mikla 1918.
„En hvort hún er tilbúin til að fara að gjósa er kannski svolítið álitamál. Grímsvötn þau eru náttúrlega búin að þenjast og lyfta sér hærra heldur en þegar síðasta gos var og sama gildir um Heklu. Út frá þeim mælingum þá eru þessi eldfjöll alveg tilbúin í það að fara að gjósa en hvort þau gjósi það er allt annar handleggur,“ segir Þorvaldur.
Þá bætir hann við að vísindamenn reynist ekki alltaf sannspáir enda séu eldfjöll óútreiknanleg eins og sést hefur í gosinu í Geldingadölum.
„Við náttúrlega erum með ákveðnar mælingar og eftirlit og reynum að lesa í eldfjallið út frá þeim. En svo náttúrlega eru okkar mælingar allar saman takmarkaðar að sumu leyti og eldfjöllum er svo sem alveg sama um okkar mælingar, þau eru ekkert að hegða sér í samræmi við þær.“

Síðast tvö eldgos á einu ári 1875
Ef eldgos hefst í Öskju á næstunni er ljóst að um stórviðburð væri að ræða því ekki hafa tvö eldfjöll gosið á Íslandi á sama árinu frá því 1875, þegar gaus í Öskju og Sveinagjá. Þar áður höfðu tvö gos átt sér stað á sama ári þegar gaus í Eyjafjallajökli og Vatnajökli 1823.
„Það er mjög erfitt að segja til að það náttúrlega en ef að risið heldur áfram á þessum hraða sem það er þá held ég það að sé nú frekar stutt í það. Þá erum við kannski að tala um einhverja daga og hugsanlega vikur. En það er náttúrlega alltaf þetta ef. Ef að risið heldur áfram á sama hraða eða það hægist á því þá dregur náttúrlega úr líkunum, þá gæti aðdragandinn að næsta gosi orðið aðeins lengri.“
Þorvaldur segir það vera alveg ljóst að Askja sé smám saman búin að vera að undirbúa sig fyrir gos undanfarin ár. Í því samhengi nefnir hann að ísinn á Öskjuvatni hafi bráðnað árið 2012 vegna aukinnar hveravirkni við botn vatnsins. Mælst hafi aukið hitaflæði í gegnum æðarnar undir niðri sem þýði að hugsanlega sé kvika að færa sig til í kerfinu. Þá sé berghlaupið 2014 sem féll úr Suðurbotnum niður í Öskjuvatn og olli stórri flóðbylgju einnig partur af þessum aðdraganda.
„Þannig það eru búin að vera teikn á lofti í næstum því níu ár að það sé eitthvað fara að gerast í Öskju,“ segir hann.
Aðspurður um hvernig gosi mætti búast við í Öskju nefnir Þorvaldur sprengigos sem möguleika. Slík gos eiga sér stað þegar heit kvika kemst í snertingu við vatn og kælir hana svo hún verður að ösku áður en hún komst upp úr jörðu. Komist askan upp á yfirborðið getur hún þeyst langar leiðir eins og gerðist þegar Askja gaus 1875 en þá dreifðist aska um allt Fljótsdalshérað og Austfirði, frá Borgarfirði suður til Fáskrúðsfjarðar.
Þorvaldur segir slíkt gos geta valdið verulegu gjóskufalli í nokkra tugi ef ekki hundrað kílómetra fjarlægð sem gæti orsakað tjón á gróðri og óþægindum en þau séu þó aðeins hættuleg þeim sem hætta sér nærri eldstöðinni.
„Þetta er ekki lífshættulegt nema fyrir þá sem eru mjög nálægt eldstöðinni“ segir hann.

Ekki tímabært að lýsa yfir goslokum í Geldingadölum
Í gær birtust fregnir af því að gígurinn í Geldingadölum væri tómur en Þorvaldur telur þó ekki tímabært að lýsa yfir endalokum gossins sem hefur nú staðið yfir í tæplega hálft ár.
„Ég held ekki. Það eru enn þá smá óróapúlsar sem koma þarna. Raunar ekki miklir en það náttúrlega þýðir að það eru einhver afköst í gangi þarna undir sem þýðir að það er fersk kvika að koma inn,“ segir Þorvaldur og bætir við að í gær hafi sést glóandi hraun í hraunpípum sem þýðir að það sé enn þá hraun að flæða þar um.
„Þannig ég held að þetta sé enn þá í gangi en það hefur slökkt á allri yfirborðsvirkni og óróinn hann hefur dottið niður þannig við erum ekki með þessar stóru gasbólur að myndast sem streyma út alltaf í þessum hrinum. En ég held að það sé ekki tímabært að kalla á goslok, ekki enn þá. Það getur vel verið að þetta sé atburðarás sem leiði til gosloka, það er ekki útilokað,“ segir Þorvaldur að lokum.
Aðspurður um hvort það sé ekki spennandi að vera eldfjallafræðingur á tímum sem þessum segir Þorvaldur það svo sannarlega vera.
„Það er bara mjög gaman að fá að fylgjast með svona og hvernig þessi atburðarás sýnir sig á hverjum tíma, það er margt sem hefur komið manni á óvart og sem maður bjóst ekki endilega við.“