Magnús Tumi Guð­munds­son jarð­eðlis­fræðingur benti á það í gær að hraunið úr eld­gosinu í Mera­dölum stefndi í átt að Suður­strandar­vegi. Hann segir að gerðar verði frekari mælingar á gossvæðinu í dag sem gefa muni betur til kynna hvað sé í gangi á svæðinu en erfitt hefur reynst að stunda mælingar undan­farna daga vegna veðurs.

Magnús Tumi segir margar mögu­legar sviðs­myndir af því hvernig og hvert hraunið munið flæða. Sú versta sé sú að á stuttum tíma flæði hraunið yfir Suður­strandar­veg.

„Fari svo að rennslið haldist stöðugt og flutnings­leiðir hraunsins verði eins og þær eru núna þá gæti hraunið flætt yfir veginn eftir svona tvær vikur, en það gæti líka tekið mun lengri tíma, við vitum það ekki,“ segir Magnús Tumi.

Hann segir mikil­vægt að búa sig undir verstu sviðs­myndina. Hann segir að nægur tími sé til að loka veginum áður en og ef það flæðir yfir hann, hraunið myndi að öllum líkindum fara yfir Suður­strandar­veg og í átt til sjávar. „Það myndi þá fara dá­lítið austan við bíla­stæðin og göngu­leiðirnar.“

Ekki náðist í Sigurð Inga Jóhanns­son inn­viða­ráð­herra við vinnslu fréttarinnar. Hann er er­lendis.