Gæsluvarðhaldsúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur yfir hjúkrunarfræðingi sem sökuð er um að hafa orðið sjúklingi á geðdeild Landspítalans við Hringbraut að bana fyrr í mánuðinum hefur verið felldur úr gildi af Landsrétti. Þetta staðfesti Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við RÚV.
Að mati Landsréttar var ekki ástæða til þess að konan, sem er á sjötugsaldri, yrði í haldi lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna en hún var úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald af Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudaginn, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Konan sem lést var á sextugsaldri og leikur grunur á að hún hafi kafnað í matmálstíma.
Lögregla hefur varist tíðinda af málinu, sem og Landspítalinn. Lögregla ekki gefið út hvort talið er að um manndráp af gáleysi eða ásetningi sé að ræða. Margeir Sveinsson aðstoðarlögregluþjónn segir við RÚV að rannsókn gangi ágætlega og skýrslutökur farið fram en vildi ekki segja hve margar. Embætti landlæknis hefur málið einnig til skoðunar.