Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í dag áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni í tengslum við stunguárásina á Bankastræti Club í nóvember síðastliðnum.

Hann er sá eini sem situr enn í varðhaldi og var það framlengt til 10. febrúar næstkomandi.

Á annan tug voru í gæsluvarðhaldi þegar sem mest var vegna málsins enda eitt það umfangsmesta af þessu tagi hér á landi.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. Hann segir ekki búið að létta réttarstöðu af öllum sakborningum í málinu, enginn sé þó í farbanni.

Árásin átti sér stað fimmtudaginn 17. nóvember síðastliðinn og greindi Fréttablaðið frá umfangsmiklum aðgerðum lögreglu og sérsveitar við staðinn.

Þrír menn slösuðust í árásinni og fór ógnvekjandi myndbandsupptaka í dreifingu á samfélagsmiðlum nokkrum dögum eftir árásina.

Á myndbandinu má sjá á þriðja tug grímuklæddra einstaklinga ráðast inn í VIP-herbergi staðarins og ráðast að þremur einstaklingum.

Eftir að lögregla og sérsveit kom á vettvang var staðurinn tæmdur og þeir slösuðu sóttir af sjúkrabílum.

Samkvæmt Grími Grímssyni yfirlögregluþjóns miðast rannsókn málsins vel áfram. Ekki líði á löngu þar til málið verði sent til héraðssaksóknara til ákærumeðferðar.