Gæsluvarðhald hefur verið framlengt um fjórar vikur yfir karlmanni á sjötugsaldri sem er grunaður um að hafa brotið gegn allt að 30 börnum.
Ævar Pálmi Pálmason, yfirlögreglumaður í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að maðurinn hafi þegar verið færður fyrir dómara og gæsluvarðhaldið framlengt. Tekin var ákvörðun í gær um það.
Spurður hversu langt aftur brot mannsins nái segir hann að þau brot sem lögreglan rannsakar nú nái ekki lengra en árið 2021.
Hann segir að búið sé að yfirheyra um 40 manns í tengslum við málið og að rannsókn þess sé gífurlega umfangsmikil. Bæði vegna þess mikla fjölda sem hann er grunaður um að hafa brotið gegn auk umfangs gagnanna sem lögreglan hefur þurft að greina í rannsókn sinni.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því fyrir áramót en hann notaði, meðal annars, Snapchat til að nálgast börn og til að brjóta á þeim.
Ævar Pálmi segir að rannsókn málsins sé langt á veg komin og á von á því að henni ljúki bráðlega.