Gæsluvarðhald yfir sakborningunum tveimur í hryðjuverkamálinu svokallaða var framlengt um tvær vikur, eða til 24 nóvember, í Héraðdsómi Reykjavíkur rétt í þessu. Þetta staðfestir

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars sakborningsins, en tekur fram að báðir sakborningarnir ætli að kæra úrskurðinn til Landsréttar.

Líkt og áður segir er um að ræða tveggja vikna úrskurð, en að honum loknum verða þrjár vikur eftir að hámarkslengd gæsluvarðhalds áður en ákæra er gefin út í málinu, en það væru tólf vikur.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars sakborningsins.

Mennirnir tveir eru grunaðir um að skipuleggja hryðjuverk hér á landi, og eiga til að mynda að hafa rætt um að fremja glæpi gegn stofnunum, stjórnmálafólki og öðrum sem eru áberandi í íslensku þjóðlífi.

„Gæslu­varð­halds­krafan snýst núna, öfugt við það sem var fyrst, um að það séu al­manna­hags­munir að halda þessum piltum inni í gæslu­varð­haldi á­fram,“ sagði Sveinn Andri við Fréttablaðið í gær.

„Vegir dóm­stólanna eru ó­rann­sakan­legir og það má alltaf vona það besta. Ég mun, og minn um­bjóðandi, mót­mæla þessu harka­lega á morgun. Þetta er eins og ein­hver leikur sem gengur allt of langt. Lög­reglan er komin langt fram úr sér að okkar mati og það er ó­skandi að dómurinn sjái það raun­gerast,“ sagði hann jafnframt.