Gæsluvarðhald yfir hinum grunaða við rannsókn á brunanum við Bræðraborgarstíg 1 þann 25. júní síðastliðinn hefur verið framlengt til 8. september. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð þess efnis í vikunni, en Fréttablaðið hefur úrskurðinn undir höndum.
Hinn grunaði er sagður liggja undir sterkum grun um að hafa brotið gegn 211. grein almennra hegningarlaga, sem snúi að manndrápi af ásetningi. Einnig er maðurinn grunaður um brot gegn valdstjórninni, að hafa valdið eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu og að hafa stofnað lífi annarra í hættu. Í úrskurðinum kemur fram að brotin sem um ræðir geti varðað allt að ævilöngu fangelsi.
„Þyki brot kærða þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að hann gangi laus á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum hér á landi,“ segir í gæsluvarðhaldsúrskurðinum.