Egill Örn Bjarnason, hundaeigandi í Hafnarfirði, fann í vikunni harðfisk í afgirtum garði sínum við Langeyrarveg. Það er ekki í frásögur færandi nema búið var að troða nöglum inn í bitana og koma þeim fyrir á lóðinni,

Egill Örn á þýskan fjárhund sem heitir Ernir, sem var kominn með einn bita í kjaftinn áður en Egill náði að hrifsa bitann af honum.

„Ég sá að hann var með eitthvað óvenjulegt og athugaði málið. Lóðin er afgirt fyrir almenningi í að minnsta kosti 30 metra radíus frá staðnum þar sem þetta fannst,“ segir Egill. Hann hvetur dýraeigendur til þess að skoða garða sína „þar sem gæludýr virðast ekki geta verið óhult í eigin garði.“

Eitrað fyrir köttum

„Þetta hefur líklega sloppið fyrir horn þar sem ég var fljótur til. En ég er enn þá að fylgjast með honum þar sem svona lagað geta stíflað og eða sært meltingarveg og einkenni því verið smá tíma að koma fram,“ segir Egill í samtali við Fréttablaðið.

„Ég heyrði að það hafi verið eitrað fyrir köttum hérna í hverfinu fyrir um það bil tveimur til þremur árum og þá hafi fjórir kettir látist.“

Málið er til rannsóknar hjá lögreglu og er fólki bent á að hafa samband við Lögregluna í Hafnarfirði búi það yfir upplýsingum um málið.

Egill Örn