„Kosning mín í em­bætti for­seta Ís­lands 1980 breytti auð­vitað tals­vert sýn á stöðu kvenna. Úr því að hún getur það, þá get hlýt ég að geta það. Mér finnst núna þegar ég lít til baka, þá finnst mér það eigin­lega það besta sem ég gerði,“ segir Vig­dís Finn­boga­dóttir, fyrr­verandi for­seti Ís­lands, í við­tali við Ís­lands­banka.

Vig­dís ræddi for­seta­kjör sitt árið 1980 í til­efni af Kven­réttinda­deginum í dag, en líkt og kunnugt er varð Vig­dís fjórði for­seti Ís­lands og fyrsta konan í heiminum til þess að gegna em­bætti for­seta.

Ótækt að engin kona væri meðal frambjóðenda

„Af hverju var ég kosin? Af hverju var ég beðin um að koma í fram­boð? Ég náttúru­lega vildi það ekki og gaf mig ekki fram sjálf. Það var varið að leita í kjöl­far kvenna­frí­dagsins, en þá sögðu menn hér, eða konur, að það væri al­gjör­lega ó­tækt að hafa ekki konu meðal fram­bjóð­enda þegar það átti að kjósa for­seta,“ sagði Vig­dís í við­talinu.

Vig­dís var á þessum tíma leik­hús­stjóri hjá Leik­fé­lagi Reykja­víkur, sem í dag er Borgar­leik­húsið, en kvaðst engan á­huga hafa haft á því að bjóða sig fram. „Það kom ekki til mála. Síðan var bara svo að það var ýtt svo mikið á mig að það endaði með því að ég gafst upp,“ sagði hún. Hvatningar­orð frá sjó­mönnum hafi leitt til þess að hún sam­þykkti að bjóða sig fram til for­seta.

„Hvað í ó­sköpunum er þetta fyrir­bæri?“

Vig­dís benti á að hún hafi sam­stundis vakið mikla at­hygli um heiminn allan. „Það var mjög snemma að ég var boðin víða, að koma í heim­sóknir úti um allar jarðir í út­löndum og ég reiknaði alltaf með að menn vildu sjá þetta fyrir­bæri. Vita hvað í ó­sköpunum er þetta fyrir­bæri,“ út­skýrði Vig­dís.

Þetta hafi hins vegar verið mikið gæfu­spor. „Alveg burt­séð frá því hvort það var ég eða ein­hver önnur, þá var kominn tími til að kjósa konu og sanna að kona getur gegnt sömu störfum og karlar.“

Við­tal Ís­lands­banka við Vig­dísi er að finna hér fyrir neðan.