Samkvæmt mennta- og menningarmálaráðuneytinu var ágalli á háskólalögum ástæðan fyrir því að gerð var svokölluð gæðahandbók, sem er núna á lokastigi. Hafi þau lög ekki gert ráð fyrir viðurkenningu nýrra háskólastofnana, en umsókn Kvikmyndaskóla Íslands árið 2019 hafi verið sú fyrsta sinnar tegundar.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær telja forsvarsmenn skólans ráðuneytið halda skólanum í gíslingu. Svör hafi verið lítil í tæp tvö ár, önnur en þau að von væri á gæðahandbókinni. Sagði Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður skólans, að sú bók væri tilbúningur í ráðuneytinu sem ætti enga stoð í lögum. Ákveðið hefur verið að Listaháskólinn verði með kvikmyndanám á háskólastigi.

Samkvæmt svari ráðuneytisins til Fréttablaðsins er engin reynsla komin á málsmeðferðartíma viður­kenningar á nýjum háskólum. „Afgreiðslutími á viðbótarviðurkenningum til starfandi háskóla, til dæmis vegna nýrra námsbrauta í doktorsnámi, hefur verið um tvö ár frá móttöku umsóknar.“

Til að bregðast við ágallanum í lögunum hafi Gæðaráð háskóla farið fram á það, árið 2020, að téð handbók og matsrammi yrðu gerð. Hafi bæði verið leitað til innlendra og erlendra sérfræðinga við það. Þegar þessi matsgögn liggja fyrir muni ráðherra skipa óháða aðila í matsnefnd að fenginni tilnefningu Gæðaráðsins.