Gæðabakstur ætlar að hækka verð um 6,2 prósent vegna þriggja þátta, þá aðallega vegna hækkun hveitis og gengis. Kjarasamningar hafa einnig áhrif á hækkun, um tæp 3 prósent. „Þetta er nauðsynlegt. Við getum ekki tekið á okkur kostnaðinn lengur,“ segir Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, í samtali við Fréttablaðið.

ÍSAM, heildsölu- og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna, hefur einnig boðað til verðhækkunar.

Hveiti, gengi og kjarasamningar

Vilhjálmur Þorláksson segir ástæður hækkunarinnar þríþættar. Hveiti hafi hækkað um 30 prósent á síðasta ári eftir uppskerubrestur í Evrópu.

„Það er hveiti, það er gengi og bara út af kjarasamningum höfum við þurft að hækka um tæp 3 prósent,“ segir Vilhjálmur. Fyrirtækið hafi ekki hækkað verð síðan í febrúar í fyrra. Nú sé hins vegar nauðsynlegt að hækka verð.

„Þetta er nauðsynlegt. Við getum ekki tekið á okkur kostnaðinn lengur,“ segir Vilhjálmur.

„Ég er ekki að segja það að fólk eigi ekki skilið það sem það fær í laun. En ef við fáum á okkur þessa hækkun þá verðum við að setja það út í verðlagið til að mæta þessu.“

Lægstu launin hækka mest

Samtök atvinnulífsins undirrituðu kjarasamninga við félög verslunarmanna og aðildarfélög Starfsgreinasambandsins í byrjun apríl. Samningurinn gengur út á að hækka laun þeirra lægst launuðu mest.

Gæðabakstur bakarí var stofnað 1993 en á rætur að rekja til ársins 1952 þegar Ömmubakstur var stofnað. Vörumerkin Gæðabaksturs eru Ömmubakstur, Úrvalsvörur, Breiðholtsbakarí, Stellu rúgbrauð, Ragnarsbakarí, Ekta, Gunnars kleinuhringir, Hús bakarans og Brauð vikunnar ásamt Heilkornavörulínunni og Lágkolvetna vörulínunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.