Leið­togar G7-ríkjanna, helstu iðn­ríkja heimsins, sam­þykktu í dag til­lögu um að koma á fót fjár­mögnunar­verk­efni til að bregðast við sí­vaxandi á­hrifum Kína um allan heim en Joe Biden Banda­ríkja­for­seti lagði til­löguna fram á leið­toga­fundi ríkjanna í Bret­landi í dag.

Með verk­efninu myndu fá­tækari þjóðir fá fjár­magn til upp­byggingar á inn­viðum en verk­efninu er ætlað að keppa við Belt-and-Road fram­taks­verk­efni Kína, sem hefur þegar teygt sig til Afríku, Suður-Ameríku, og hluta Evrópu. Biden hefur lagt til að verk­efni þeirra fái nafnið „Build Back Bet­ter for the World.“

Sam­kvæmt á­ætlun Banda­ríkjanna er um að ræða saman­safn af verk­efnum sem hefur þegar verið komið á fót víða um Banda­ríkin, Evrópu og Japan. Þar verði lögð á­hersla á um­hverfis­mál, að­gerðir til að sporna gegn spillingu, og að­gerðir til að koma í veg fyrir efna­hags­krísur síðar meir. Þá er á­hersla lögð á að bann við nauðungar­vinnu, líkt og Kín­verjar eru sagðir hafa notað Úígúra í.

Að því er kemur fram í frétt New York Times um málið hefur Hvíta húsið þó ekki lagt til neinar fjár­hags­legar skuld­bindingar vegna verk­efnisins og eru ekki öll ríkin sam­mála um hvernig eigi að bregðast við efna­hags­legum á­hrifum Kín­verja og fram­göngu þeirra í mann­réttinda­málum.

Viðbrögð við faraldri í brennidepli

Líkt og áður segir fer leið­toga­fundur G7-ríkjanna nú fram í Cornwall í Bret­landi og lýkur honum á morgun. Meðal þess sem hefur verið sér­stak­lega til um­ræðu hjá leið­togum ríkjanna sjö er heims­far­aldur CO­VID-19 og hvernig bregðast megi við stöðu mála.

Í gær sam­þykktu leið­togarnir svo­kallaða Car­dis Bay yfir­lýsingu þar sem skref verða tekin til að koma í veg fyrir að CO­VID-19 sagan endur­taki sig og að far­aldrar fram­tíðarinnar verði ekki jafn skæðir og sá sem heims­byggðin hefur nú glímt við í rúmt ár.

Meðal þess sem kveðið er á um í yfir­lýsingunni er svo­kallað 100 daga verk­efni þar sem mark­miðið er að þróa bólu­efni, með­ferðir, og greiningar­að­ferðir innan við 100 dögum eftir að far­aldur hefst.

Vísað er til þess að fyrsta bólu­efnið gegn kóróna­veirunni hafi verið sam­þykkt á rúm­lega 300 dögum, með­ferð með lyfinu dexa­met­ha­sone hafi verið sam­þykkt eftir 138 daga, og flýti greiningar­próf hafi verið sam­þykkt af Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnuninni, WHO, eftir 236 daga.

Sam­kvæmt yfir­lýsingu ríkjanna er um metnaðar­fullt og gífur­legt verk­efni að ræða sem þau eru þó til­búin til að reyna við.