Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, verður fyrstur allra Íslendinga til að fara í nýja hátæknimeðferð á sjúkrahúsinu í Lundi í Svíþjóð.
Egill greindist í fyrra með eitilfrumukrabbamein en hann greinir frá því á Facebook að líkami hans hafi ekki svarað lyfjameðferðum eins og vonast var.
Meðferðin mun taka nokkra mánuði en vonast er til þess að hún drepi æxlið algjörlega.
„Í þessari ferð er aðeins verið að safna úr mér eitilfrumum. Svo eru þær sendar á rannsóknarstofu. Þeim erfðabreytt á þann veg að þegar þeim er aftur dælt inn í mig í formi lyfs þá eiga þær að ráðast á krabbameinið og drepa það,“ útskýrir Egill í samtali við Fréttablaðið.