Fyrstu tölur úr próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík eru Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í vil. Tölurnar birtust nú fyrir skemmstu en hann og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra kljást um fyrsta sætið. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru 100 atkvæði á milli Áslaugar og Guðlaugs í 1. sæti.

Klukkan 19:00 höfðu 1502 atkvæði verið talin. Guðlaugur er með 765 atkvæði í fyrsta sætið. Áslaug kemur á eftir með 1001 atkvæði í fyrsta til annað sætið. Í þriðja sæti er Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs, með 601 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti.

Þegar Frétta­blaðið ræddi við Kristínu Edwald, for­mann kjör­stjörnar nú síð­degis höfðu 6300 manns kosið í próf­kjörinu. Þrettán manns eru í fram­­boði í próf­­kjörinu sem er sam­eigin­­legt fyrir bæði Reykja­víkur­­kjör­­dæmi.

Mikil þátt­taka hefur verið í próf­kjörinu og var ör­tröð á bíla­stæði Val­hallar nú síð­degis þegar Frétta­blaðið bar að garði. Kjör­staðir lokuðu klukkan 18:00. Hluti kjör­stjórnar lokaði sig inni á 2. hæð í húsinu nú síð­degis og hefur verið þar að telja at­kvæði síðan.

7500 manns höfðu kosið þegar kjörstaðir lokuðu klukkan 18:00. Endanlegar tölur munu liggja fyrir þegar allar kjördeildir hafa verið gerðar upp.

Tölurnar voru lesnar upp í beinni í kvöld­fréttum RÚV. „Þetta eru nú bara fyrstu tölur. Aðal­at­riðið er þetta, að þetta er búið að vera stórt próf­kjör, mikill gangur. Það hefur verið gaman að starfa í þessu, mikil gleði. En nóttin er ung og eins og ég segi eru þetta bara fyrsut tölur og það getur allt breyst í þessu,“ sagði Guð­laugur Þór.

„Já, bara sömu­leiðis. Glæsi­leg kjör­sókn og við getum verið afar stolt af þessu próf­kjöri. Það eru auð­vitað tvo odd­vita­sæti í þessum kjör­dæmum og þetta er bara glæsi­legt próf­kjör og við getum verið afar stolt af þessu,“ segir Ás­laug.

Úrslitin eru svohljóðandi eftir fyrstu tölur:

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er efstur með 765 atkvæði.

Í öðru sæti er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra með 1.001 atkvæði í 1. – 2. sæti.

Í þriðja sæti er Diljá Mist Einarsdóttir með 601 atkvæði samanlagt í 1. – 3. sæti.

Í fjórða sæti er Brynjar Níelsson með 573 atkvæði samanlagt í 1. – 4. sæti.

Í fimmta sæti er Hildur Sverrisdóttir með 753 atkvæði samanlagt í 1. – 5. sæti.

Í sjötta sæti er Birgir Ármannsson með 885 atkvæði samanlagt í 1. – 6. sæti.

Í sjöunda sæti er Kjartan Magnússon með 777 atkvæði samanlagt í 1. – 7. sæti.

Í áttunda sæti er Sigríður Á. Andersen með 675 atkvæði samanlagt í 1. – 8. sæti.

Fréttin hefur verið uppfærð.