Fjögur sam­fé­lagsmit, þau fyrstu í 102 daga hafa verið stað­fest í Nýja Sjá­landi. Það er New Zea­land Herald sem greinir frá þessu.

Ja­cinda Ardern, for­­sætis­ráð­herra Nýja Sjá­lands, hefur þegar til­­kynnt að sótt­varnar­­reglur verði hertar í Auck­land borg og í landinu öllu í kjöl­farið. Smitin fjögur komu öll upp í sömu fjöl­skyldunni. Sú fjöl­skylda hefur ekki ferðast utan Nýja Sjá­lands og er upp­runi smitsins því enn á huldu.

Tíðindin vekja ekki síst at­hygli þar sem er­lendir miðlar hafa keppst við að greina frá því að landið hafi verið CO­VID-19 laust í hundrað daga.

Farið verður í þriðja stig við­búnaðar í borginni frá mið­nætti og fram á föstu­dag og í annað stig annars staðar á landinu. Þriðja stig við­búnaðar þýðir að allir starfs­menn, utan þeirra sem starfa í þjónustu­geira og heil­brigðis­geira, þurfa að vinna heiman frá.

Þá verða barir, veitinga­­staðir og önnur fyrir­­­tæki lokuð frá og með morgun­­deginum.

„Við biðjum fólk í Auck­land um að vera heima til að koma í veg fyrir út­breiðslu CO­VID,“ er haft eftir Ardern. Hún viður­kennir að mörgum spurningum sé ó­svarað vegna hinna nýju smita.

„Látið eins og þið séuð með CO­VID og eins og fólk í kringum ykkur sé með CO­VID,“ segir hún. Apó­tek og verslanir halda á­fram að vera opin og biður hún lands­menn um að flýta sér hægt í verslun. Engin á­stæða sé til þess að hafa á­hyggjur af því að vörur klárist.