Fyrstu 1.200 skammtarnir af bóluefni Moderna gegn COVID-19 komu til landsins snemma í morgun með fraktvél Icelandair frá Belgíu.
Efnið var flutt til dreifingarfyrirtækisins Distica í Garðabæ. Um er að ræða annað bóluefni gegn COVID-19 sem kemur til landsins en fyrstu skammtar af bóluefni Pfizer kom til landsins þann 28. desember síðastliðinn. Bóluefni Moderna geymist við hærri hita en Pfizer bóluefnið sem geymist í um -70 gráðum. Bóluefni Moderna geymist hins vegar við 15-20 gráðu frost.
„Við erum í morgun búin að fara yfir hitastig í flutningum og lesa af hitasíritum sem fylgja sendingunni allan flutninginn. Við erum einnig búin að fara yfir vottorð og önnur gæðaskjöl sem fylgja bóluefninu,“ segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, í samtali við Fréttablaðið.
Hún átti von á því að ef allt væri í lagi þá myndi bóluefnið fara í dreifingu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er stefnt á að hefja bólusetningu með bóluefninu á morgun.

Þessir 1.200 skammtar munu fara í að klára að bólusetja framlínustarfsmenn. Þá þarf að endurbólusetja eftir fjórar vikur en von er á 1.200 skömmtum af bóluefni frá Moderna á tveggja vikna fresti út marsmánuð. Eftir það er ekki ljóst hversu mikið eða hvenær Ísland fái fleiri skammta af bóluefninu.
Á RÚV kemur fram að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fái 500 skammta til þess að bólusetja sjúkraflutningafólk og lögreglufólk í framlínustörfum og starfsmenn Farsóttarhússins.