Fyrstu loftmyndirnar frá eyjunni Tonga hafa nú verið birtar en á þeim sést þykkt öskulag eftir sprengigosið þann 15. janúar í eldfjallinu Hunga Tonga-Hunga Ha'apai .
Eldfjallið er undir sjávarmáli í um 65 kílometrum frá eyjunni Tonga. Samkvæmt vísindamönnum er um að ræða öflugasta sprengigos á jörðinni í 30 ár. Stór flóðbylgja fór yfir eftir gosið.
Myndin var tekin af Nýsjálensku herliði sem flaug yfir eyjuna. Tvö andlát hafa verið staðfest á eyjunni. Angela Glover lést þegar flóðbylgjan fór yfir eyjuna en hún bjó á eyjunni með fjölskyldu sinni og starfaði við dýrabjörgun. Hún var breskur ríkisborgari.

Forseti Nýja-Sjálands sagði í gær að vegna mikillar ösku sem liggur yfir flugvellinum gæti orðið erfitt að flytja hjálpargögn til eyjunnar. Það þurfi að hreinsa öskuna svo hægt sé að lenda flugvél þar en send hafa verið tvö herskip með vatn og önnur hjálpargögn. Um borð í öðru skipinu er þyrla sem á að aðstoða við það að koma hjálpargögnunum til fólksins
Erfitt hefur verið að ná til fólks þar því ekkert síma- eða netsamband hefur verið á eyjunni. Ólíklegt er að það breytist í bráð því kapallinn sem tengir eyjuna við umheiminn slitnaði líklega við gosið og það mun taka margar vikur að laga hann að sögn forsvarsfólks Southern Cross Cable sem á og rekur kapalinn.

Á vef Guardian má sjá gervihnattarmyndir sem búið er að greina af Sameinuðu þjóðunum en á þeim má sjá þykkt öskulag yfir öllu.
Alls búa um 100 þúsund manns á eyjunum en flestir búa á stærstu eyjunni Tongatapu. Alls eru 169 eyjur í eyjaklasanum sem tilheyra Tonga en aðeins er búið á 36 þeirra.