Fyrstu loft­myndirnar frá eyjunni Tonga hafa nú verið birtar en á þeim sést þykkt ösku­lag eftir sprengi­gosið þann 15. janúar í eld­fjallinu Hunga Tonga-Hunga Ha'apai .

Eldfjallið er undir sjávar­máli í um 65 kílometrum frá eyjunni Tonga. Sam­kvæmt vísinda­mönnum er um að ræða öflugasta sprengi­gos á jörðinni í 30 ár. Stór flóð­bylgja fór yfir eftir gosið.

Myndin var tekin af Ný­sjá­lensku her­liði sem flaug yfir eyjuna. Tvö and­lát hafa verið stað­fest á eyjunni. Angela Glover lést þegar flóð­bylgjan fór yfir eyjuna en hún bjó á eyjunni með fjöl­skyldu sinni og starfaði við dýra­björgun. Hún var breskur ríkis­borgari.

Myndin til vinstri er tekin 2. janúar og sú til hægri 15. janúar, sama dag og eldgosið átti sér stað.
Fréttablaðið/EPA

For­seti Nýja-Sjá­lands sagði í gær að vegna mikillar ösku sem liggur yfir flug­vellinum gæti orðið erfitt að flytja hjálpar­gögn til eyjunnar. Það þurfi að hreinsa öskuna svo hægt sé að lenda flug­vél þar en send hafa verið tvö her­skip með vatn og önnur hjálpar­gögn. Um borð í öðru skipinu er þyrla sem á að að­stoða við það að koma hjálpar­gögnunum til fólksins

Erfitt hefur verið að ná til fólks þar því ekkert síma- eða net­sam­band hefur verið á eyjunni. Ó­lík­legt er að það breytist í bráð því kapallinn sem tengir eyjuna við um­heiminn slitnaði lík­lega við gosið og það mun taka margar vikur að laga hann að sögn for­svars­fólks Sout­hern Cross Ca­ble sem á og rekur kapalinn.

Myndin til vinstri er tekin þann 18. janúar og sú til hægri 6. janúar. Á henni má sjá greinilega öskulagið sem liggur yfir eyjunum.
Fréttablaðið/EPA

Á vef Guar­dian má sjá gervi­hnattar­myndir sem búið er að greina af Sam­einuðu þjóðunum en á þeim má sjá þykkt ösku­lag yfir öllu.

Alls búa um 100 þúsund manns á eyjunum en flestir búa á stærstu eyjunni Tongatapu. Alls eru 169 eyjur í eyja­klasanum sem til­heyra Tonga en að­eins er búið á 36 þeirra.