Bíllinn kallast MG Cyberster og er í raun og veru önnur útgáfa slíks bíls frá merkinu. Fyrri bíllinn var E-Motion Coupe tilraunabíllinn sem MG frumsýndi árið 2017. Cyberster verður frumsýndur á bílasýningunni í Sjanghæ í næsta mánuði sem allar líkur benda til að verði nú að veruleika. Að sögn MG er bíllinn tilraun merkisins til að sjá hvernig sportbíll framtíðarinnar muni líta út og þykir sú yfirlýsing benda sterklega til þess að hann fari í framleiðslu.

Innanrýmið er mjög framúrstefnulegt með óvenjulegu stýri sem minnir á leikjatölvuhönnun.

Bíllinn er auðsjáanlega tilraunabíll eins og sést til dæmis á ljósabúnaði hans, en díóðuljósalínur eru áberandi í hönnuninni. Um nokkurs konar Speedster er að ræða þar sem ekkert þak er á tilraunabílnum. Afturendinn er eins og skorinn af og endar í oddi sem að MG segir að bæti til muna loftflæði bílsins, eitthvað sem skiptir miklu máli í rafbílum. Innanrými bílsins er enn framúrstefnulegra en ytra útlit hans, en því er skipt í tvennt af stórum miðjustokki sem meðal annars inniheldur mjóan upplýsingaskjá. Stýrishjólið minnir meira á stjórntæki leikjatölvu en bíl og mælaborðið virðist vera í þrívídd. MG hefur látið frá sér eitthvað af tækniupplýsingum eins og að bíllinn hafi 800 km drægi og að hann verði undir þremur sekúndum í hundraðið. Gaman verður því að sjá hvort bíllinn fari í framleiðslu.