Þökk sé japanska mótorhjólatímaritinu Auto-By náðust góðar myndir af hjólunum sem sýna mikið um búnað þess. Tvinnhjólið notar greinilega 399 rsm-vélina úr Z400-hjólinu sem er tveggja strokka, en pústið er alveg eins og á því hjóli. Komnir eru tveir bremsudiskar að framan sem bendir til meira afls, líklega á pari við Z650- hjólið en framendinn kemur af því hjóli. Framljósin eru græn sem er líklega tilvísun í að hjólin séu „grænni“ ásamt því að það er litur Kawasaki. Afturendinn er bæði meiri um sig og lengri en á Z400- hjólinu en það er vegna þess að þar er búið að koma fyrir 48 volta rafhlöðu. Rafmótorinn er fyrir ofan gírkassann og tengist honum með rafstýrðri kúplingu. Engin eiginleg kúpling er í hjólinu heldur er skipt með takka vinstra megin á stýrinu. Hjólið mun geta ekið á rafmagni eingöngu, til dæmis á minni hraða innanbæjar, en notar þá frekar vélina utanbæjar og hleður upp rafhlöðuna í leiðinni.

Rafhjólið er einfaldlega merkt EV og er sambærilegt við 125 rúmsentimetra bensínmótor.

Kawasaki kynnti einnig rafhjól sem er á pari við 125 rsm bensínhjól. Virðist rafhlaðan í því bjóða upp á að vera skiptanleg. Hjólið virðist einfalt að gerð með hefðbundnum íhlutum sem gefur til kynna að það verði á viðráðanlegu verði. Til dæmis er vindkúpan og framljósið frá Z400-hjólinu. Rafmótorinn er einfaldur og virðist vera með einu drifi án gírkassa. Orðrómurinn segir að tvö slík verði kynnt bráðlega, bæði torfæruhjól og götuútgáfa, ásamt tvinnhjólinu og þá líklega kringum EICMA-mótorhjólasýninguna í nóvember. n