Tvö ker í ker­skála þrjú í ál­veri Rio Tin­to í Straums­vík voru endur­ræst í gær en Bjarni Már Gylfa­son, upp­lýsinga­full­trúi Rio Tin­to á Ís­landi, stað­festir þetta í sam­tali við Frétta­blaðið. Vinna hafi verið í fullum gangi og á­nægju­legt að sjá þetta gerast á undan á­ætlun.

Alls eru 160 ker í skálanum sem varð að slökkva á í júlí síðast­liðnum eftir að ljós­bogi myndaðist í einu keranna. Sagði Rann­veig Rist, for­stjóri fyrir­tækisins, í sam­tali við Frétta­blaðið á þeim tíma að ekki væri ljóst hve mikið fjár­hags­legt tjón yrði vegna málsins.

„Vinnan hefur verið í fullum gangi og í gær var árangurs­rík ræsing á fyrstu tveimur skálunum svo það ferli er hafið að­eins á undan á­ætlun og við að sjálf­sögðu al­sæl með það,“ segir Bjarni. Spurður segir hann of snemmt að segja til um fjár­hags­legt tjón af málinu.

Gert er ráð fyrir því að tvö ker verði ræst á hverjum einasta degi en það muni taka sinn tíma og gert ráð fyrir því að það muni taka nokkra mánuði. Þegar Frétta­blaðið náði tali af Bjarna var hann á fullu í undir­búning vegna fjöl­skyldu­há­tíðar Straums­víkur en haldið er upp á fimm­tíu ára af­mæli ál­fram­leiðslu.

„Við byrjum klukkan eitt og hér er bara undir­búningur í fullum gangi þannig að allt verði til­búið hér fyrir gesti og gangandi.“