Fyrstu kapp­ræður Donalds Trump og Joe Biden fyrir for­seta­kosningarnar í Banda­ríkjunum fara fram í nótt. Kapp­ræðurnar fara fram í Cle­veland í Ohio og mun Chris Wallace, fréttamaður FOX News stýra um­ræðunum.

Kapp­ræðurnar eru 90 mínútur í heild sinni og verður skipt upp í sex um­ræðu­flokka og verður 15 mínútum varið í að ræða hvern flokk.

Fyrirfram ákveðnu um­ræðu­efnin eru:

  • Af­rek Trump og Biden
  • Hæsti­réttur Banda­ríkjanna
  • Kórónu­veiran
  • Mót­mæli gegn kyn­þátta­hatri og ó­eirðir í borgum Banda­ríkjanna
  • Heilindi kosninga
  • Efna­hags­mál.

Biden og Trump fá tvær mínútur til að svara spurningum Wallace áður en þeir mega beinum spurningum að hvor öðrum. Kappræðurnar hefjast kl. 1 á íslenskum tíma og verða sýndar í beinni á RÚV.

Hver er Chris Wallace?

Þrátt fyrir að Wallace sé frétta­maður hjá FOX News er hann langt frá því að vera jafn hlið­hollur for­setanum og sam­starfs­fé­lagar sínir. Trump hefur í­trekað verið ó­sáttur með frétta­flutning Wallace og sagt opin­ber­lega að hann sé í raun bara lélegri útgáfa af föður sínum, Mike Wallace, sem var frétta­maður hjá 60 minu­tes á CBS.

Wallace á að að baki langan feril sem fréttamaður en þegar hann var táningur var hann aðstoðarmaður fréttaþulsins Walter Cronkite, fyrir landsfund Repúblikanaflokksins árið 1964. Hann hóf síðar störf sem frétta­maður hjá NBC News árið 1975 en færði sig yfir til ABC News eftir fjór­tán ára starf. Hann hóf svo störf hjá FOX News árið 2003 og stýrði kapp­ræðum milli Trump og Clin­ton fyrir FOX News árið 2016.

Chris Wallace að stýra kappræðum Trump og Clinton árið 2016.
Ljósmynd/AFP

The Was­hington Post greindi frá því árið 2006 að Chris Wallace væri skráður meðlimur í Demó­krata­flokknum og hafði verið það í tvo ára­tugi. Wallace gaf lítið fyrir þá stað­reynd á sínum tíma og sagði að hann væri bara skráður í flokkinn til að kjósa í próf­kjörum flokksins í Was­hington D.C., höfuð­borg Banda­ríkjanna, þar sem Demó­krata­flokkurinn nýtur mikils fylgis.

Í við­tali við The New York Times fyrr á þessu ári sagði Wallace að hann væri langt því að vera sam­mála því sem hann heyrir frá sam­starfs­fé­lögum sínum á FOX News.

Mynd­bands­brot úr við­tali Wallace og Trump á FOX News í júlí fór víða um heim eftir að for­setinn gortaði sig á að hafa staðið sig vel í vit­rænu getu­prófi meðan Wallace gaf lítið fyrir niður­stöðurnar þar sem hann hafði tekið prófið sjálfur.

Tekjuskattsgreiðslur Trump líklegast til umræðu

Á sunnu­dags­kvöldið greindi The New York Times frá því að Trump hefði ekki greitt tekju­skatt í tíu ár af fimm­tán, frá árinu 2000. Þá greiddi hann einungis 750 dali eða rúm­lega 100.000 ISK í tekju­skatt á árunum 2016 og 2017.

Fram­boð Bidens var ekki lengi að nýta sér upp­lýsingarnar og gaf út staf­ræna aug­lýsingu þar sem tekju­skatts­greiðslur for­setans voru bornar saman við tekju­katts­greiðslur kennara, slökkvi­liðs­manna og hjúkrunar­fræðinga.

Sam­kvæmt heimildar­manni CNNúr röðum Demó­krata­flokksins er talið lík­legt að Biden muni gera tekju­skatts­greiðslur for­setans að um­ræðu­efni í kvöld.

Frétta­flutningur um skatt­greiðslur Trumps síðutu ára kemur sér einstaklega vel fyrir fram­boð Bidens. Kosninga­stjórn Bidens hefur tekið fram að mark­miðið er að stilla fram­bjóð­endunum tveimur upp sem „Scranton vs. Park A­venu­e“ og sýna þannig fram á að Trump væri ekki hluti af „vinnandi stétt“ Banda­ríkja­manna en Biden fæddist í Scranton í Penn­syl­vania og Park Avenue er heimili auðmanna í New York borg.

Trump hefur sagt frétta­flutning New York Times vera fals­fréttir.

Sakar Biden um að taka frammistöðubætandi lyf

Fram­boð Donalds Trump hefur á síðustu mánuðum eytt milljónum Banda­ríkja­dala í nei­kvæðar aug­lýsingar um Joe Biden þar sem hann er sagður elli­ær og eigi erfitt með að koma fyrir sig orði. Mark­miðið með aug­lýsingunum er láta kjós­endur efast um að Biden, sem er 77 ára, sé ekki með heilsu til þess að taka við starfi for­seta.

Biden gæti hins vegar notið góðs af þessum aug­lýsingum ef frammi­staða hans verður yfir meðal­lagi í kvöld.

Á síðustu dögum byrjaði Trump að dreifa ó­stað­festum sögu­sögnum um að ef Biden myndi standa sig vel í kvöld yrði það vegna þess að hann væri að taka frammi­stöðu­bætandi lyf.

Engin stað­reynda­vakt í beinni

Frank J. Fahren­kopf Jr., stjórnar­maður CPD, sér­stakri nefnd um for­seta­kapp­ræður í Banda­ríkjunum, sagði í sam­tali við CNN á sunnu­daginn að það er ekki búist við því að spyrlar muni sjá um að neina stað­reynda­vakt á meðan á kapp­ræðunum stendur.

„Um leið og stjórn­varps­við­burðurinn er búinn verður nóg af fólki á stað­reynda­vaktinni,“ sagði Fahren­kopf.