„Hálfnað er verk þá hafið er,“ sagði Alma Möller land­læknir þegar fyrstu bólu­setningunum lauk nú klukkan níu í morgun. Sér­stök at­höfn fór fram í hús­næði Land­læknis þar sem fjórir starfs­menn Land­spítala voru bólu­settir.

Þetta voru þau Kristina Elizondo, sjúkra­liði á gjör­gæslu­deild, Kristín Ingibjörg Gunnars­dóttir, hjúkrunar­fræðingur á gjör­gæslu­deild, Elías Ey­þórs­son, sér­náms­læknir í lyf­lækningum og Thelma Guð­rún Jóns­dóttir, að­stoðar­maður á bráða­mót­töku.

Fjórir starfsmenn Landspítalans voru bólusettir gegn Covid-19 fyrstir Íslendinga.
Fréttablaðið/Anton Brink

Klukkan 10 hefjast aðrar bólu­­setningar en þá verður hafist handa við að bólu­­setja starfs­­fólk Land­­spítalans og ein­stak­linga á hjúkrunar­heimilum.

Í til­­­kynningu sem Heilsu­­gæslan á höfuð­­borgar­­svæðinu sendi frá sér í gær verður íbúi á hjúkrunar­heimilinu Selja­hlíð bólu­settur klukkan 10 í fyrra­­málið, en um er að ræða rúm­­lega sex­­tugan ein­stak­ling.

Fjórmenningarnir og Alma sátu fyrir svörum á blaðamannafundi eftir bólusetninguna. Elías hvatti landsmenn til að vega og meta kosti þess að fá bóluefnið. Hann sagði eðlilegt fyrir fólk að vera smeykt við óvissu en það væri vísindalega sannað og staðfest að miklu skynsamlegra er að þiggja þessa vörn en að eiga í hættu að smitast af veirunni.

„Fólk getur orðið verulega veikt, hreinlega dáið af völdum veirunnar en það er engin slík áhætta af sprautunni. Ég hvet alla til að skoða málið vel. Þetta er skynsamlegasta leiðin út úr þessum faraldri.“