Veðurstofa Íslands hefur sett upp vefmyndavélar á svæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls til að fylgjast með því ef kvika kemur upp.

Almannavarnir segja að kvikan muni ekki koma upp með látum ef til eldgoss kemur. Fyrstu fréttir gætu því komið frá sjónarvottum líkt og árið 2010 þegar gosið hófst á Fimmvörðuhálsi. Þá voru ekki skýr merki um upphaf goss á mælitækjum Veðurstofunnar.

Mynd: Almannavarnir

Virknin vísbending um að kvikugangur sé að stækka

Kvikugangur stækkar áfram og líkur á eldgosi halda áfram að aukast á meðan kvika heldur áfram að flæða í gegnum ganginn. Með stækkandi kvikugangi má eiga von á áframhaldandi skjálftum sem finnast í byggð, sambærilegum þeim sem orðið hafa síðustu sólarhringana. Kvikan liggur mjög grunnt í jarðskorpunni, á um 1 km dýpi.

Gervihnattamyndir og nýjustu GPS mælingar staðfesta að kvikusöfnun sé áfram skorðuð við suðurenda kvikugangsins sem nær frá Keili að Fagradalsfjalli. Sá staður er áfram talinn vera líklegasti staðurinn komi til eldgoss. Virknin í suðurhlíðum Fagradalsfjalls gæti verið vísbending um að kvikugangurinn sé að stækka í suður og telur því Vísindaráð almannavarna mikilvægast að fylgjast náið með virkninni.

Sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands funduðu með Vísindaráði almannavarna í dag ásamt sérfræðingum frá Háskóla Íslands, ÍSOR, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur auk fulltrúa frá Embætti landlæknis, Isavia-ANS og HS-Orku.