Ís­land fær fimm þúsund bólu­efna­skammta frá Moderna í janúar og febrúar ef á­ætlanir lyfja­fram­leiðandans ganga eftir. Gert er ráð fyrir að bólu­efnið fái markaðs­leyfi í Evrópu á morgun eftir mats­fund Lyfja­stofnunar Evrópu.

Í til­kynningu frá heil­brigðis­ráðu­neytinu segir að á­ætlun um af­hendingu fyrstu bólu­efna­skammta frá Moderna liggi nú fyrir. Fyrst fær Ís­land fimm þúsund skammta í janúar og febrúar en eftir það verður af­hendingin hraðari.

Út­hlutunin er hlut­falls­lega sú sama og til annarra þjóða í Evrópu­sam­starfi um kaup á bólu­efnum sem miðast við í­búa­fjölda þjóða. Alls á Ís­land von á 128 þúsund bólu­efna­skömmtum frá Moderna sem duga fyrir 64 þúsund ein­stak­linga.

Einnig er gert ráð fyrir að á fyrsta árs­fjórðungi þessa árs fái Ís­land að lág­marki 45 þúsund bólu­efna­skammta af­henta frá Pfizer til við­bótar við þá tíu þúsund sem voru af­hentir í lok síðasta mánaðar.

Heil­brigðis­ráðu­neytið segir ekki úti­lokað að meira bólu­efni berist frá Pfizer á fyrsta árs­fjórðungi vegna við­bótar­samnings sem Ís­land hefur gert við fram­leiðandann. Hann hljómaði upp á 80 þúsund skammta til við­bótar þeim 170 þúsund sem Ís­land hafði þegar tryggt sér.

Hér má sjá myndrænt yfirlit yfir stöðu bóluefnasamninga Íslands við bóluefnaframleiðendur: