Dómstóll í Gautaborg í Svíþjóð hefur dæmt 47 ára gamlan mann til þriggja ára fangelsisvistar fyrir njósnir. Þetta er í fyrsta sinn í 18 ár sem kært og dæmt er fyrir njósnir í Svíþjóð. Fredrik Westerlund, sérfræðingur í öryggismálum, segir í samtali við Sydsvenskan þetta mál einungis toppinn á ísjakanum, fæst mál er varða njósnir komi nokkru sinni fyrir dómstóla.
Hann afhenti starfsmanni í rússneska sendiráðinu í Stokkhólmi leynileg gögn frá flutningabílaframleiðandanum Scania en var sýknaður af ákæru um að hafa gert hið sama við gögn frá Volvo þar sem þau voru ekki talin geyma upplýsingar sem skaðað gætu sænska hagsmuni.

Maðurinn starfaði sem ráðgjafi fyrir Scania og Volvo. Saksóknarinn Mats Ljungqvist segir hann hafa látið Rússanum í té upplýsingar meðal annars um framleiðslutækni og hugbúnað. Hinn sakfelldi afhenti Rússanum USB-minnislykla með gögnum frá Volvo og Scania gegn greiðslu, „með fullri vitneskju um að gögnin gætu verið Rússum til hagsbóta,“ að því er segir í dómnum. Rússinn tilheyrir rússnesku leyniþjónustunni að sögn þeirrar sænsku.
Mennirnir tveir hittust á veitingastað í Stokkhólmi snemma árs 2019 og þar handtók lögregla Svíann en myndband af fundinum má sjá á vef sænska ríkisútvarpsins SVT. Talið er að brotin hafi verið framin frá því um sumarið 2017 fram að handtökunni.
Saksóknari krafðist fjögurra ára fangelsis yfir manninum ef hann væri dæmdur fyrir njósnir en til vara að hann yrði dæmdur til tveggja ára fangelsis fyrir ólöglega upplýsingasöfnun. Hann neitað ávallt sök fyrir dómi.
