Nemendur í grunnskólanum í Gjerdrum mættu í fyrsta sinn í skólann í dag eftir jarðfallið sem varð í bænum Ask þann 30. desember. Sjö létu lífið en þriggja er enn saknað.

Meðal þeirra sem enn er saknað er hin 13 ára gamla Victoria Emilie Næristorp-Sørenge, nemanda í áttunda bekk við grunnskólann. Hún ásamt móður sinni er í hópi þriggja einstaklinga sem lögreglan skilgreinir nú sem týnda og telur vera látna.

Ida Melbo Øystese lögreglustjóri í Gjerdrum greindi frá því á blaðamannafundi á þriðjudaginn að yfirvöld í Noregi hafi gefið upp alla von um að finna fólk á lífi eftir jarðfallið. Leitin haldi þó áfram.

Skólahald hófst í grunnskólanum í dag klukkan 8:30 að norskum tíma og stóð til klukkan 11. Um þrjátíu nemendur í skólanum hafa enn ekki fengið að fara heim til sín eftir hamfarirnar þar sem heimili þeirra er á áhættusvæði eða skemmd.

Stine Thorstensen, skólastjóri Grunnskólans í Gjerdum hitti bekkjarfélaga Victoriu og aðra nemendur í skólanum í fyrsta skipti í dag frá því fyrir jól. Hún segir í samtali við norska fjölmiðilinn VG að það væri léttir að sjá nemundurna saman komna aftur og þá samstöðu og hlýju sem ríki meðal bæjarbúa. Það væri þó sárt að eins nemanda væri enn saknað og að hugur þeirra væri hjá fjölskyldu Victoriu.

Kveiktu á kertum

Starfsmenn skólans byrjuðu daginn á því að kveikja á kertum fyrir utan húsnæði skólans svo það loguðu kerti þegar nemendur mættu í morgun. Allar kennslustundir í dag enduðu á því að hver nemandi kveikti á kerti fyrir utan skólann. „Hver og einn kveikir kerti fyrir þann sem hann vill, fyrir bæinn, fyrir þau látnu, fyrir þá sem hafa misst einhvern og fyrir Victoriu, segir Thorstensen.