„Ég á ekki von en að vel verði tekið í verkefnið um allt land og ég hlakka til þess að veita því brautargengi í framtíðinni,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson um nýtt átak, Römpum upp Ísland, sem var formlega sett af stað í gær þegar fyrsti rampurinn var vígður við Matkrána í Hveragerði. Þetta kemur fram á heimasíðu innviðaráðuneytisins.
Stefnt er að því að koma upp alls eitt þúsund römpum víðs vegar um landið á næstu fjórum árum, en hvatamaður verkefnisins er Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno.
Fjölmörg fyrirtæki, stofnanir, samtök og einstaklingar standa straum af kostnaðinum fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu, en eins og gefur að skilja munu ramparnir veita hreyfihömluðum aukið aðgengi að verslun og þjónustu.
Átakið kemur í kjölfar annars átaks, Römpum upp Reykjavík, sem sett var af stað í fyrra. Þá voru eitt hundrað rampar settir upp í miðborg Reykjavíkur. Það verkefni gekk vonum framar þar sem því lauk þremur mánuðum á undan áætlun og var undir kostnaðaráætlun.
Nánari upplýsingar um átakið er að finna á heimasíðunni Römpum upp Ísland.