Heimsfrumsýning á Toyota bZ4X, fyrsta bílnum sem Toyota hannar frá grunni sem rafbíl, fór fram á föstudaginn var og óhætt er að segja að búið sé að bíða talsvert eftir slíkum bíl frá merkinu. Nú er hann kominn með þessu sérstaka nafni, bZ4X, þar sem bZ sem stendur fyrir beyond Zero, en þar er vísað til þess að Toyota mun þróa bíla sem skila frá sér 90% minna af koltvísýringi árið 2050 en þeir gerðu 2010, hvort sem litið er til framleiðslu eða notkunar. Toyota bZ4X er fjórhjóladrifinn bíll í millistærð með þunnri rafhlöðu í gólfinu sem á að auka rými bílsins. Áætlað er að eftir 10 ára keyrslu eða 240.000 km notkun hafi rafhlaðan 90% af upprunalegri afkastagetu.

Rafhlaðan er 71,4 kWh með 450 km drægi samkvæmt WLTP staðlinum. Hámarks hleðslugeta verður 150 kW sem þýðir að hægt verður að hlaða í 80% hleðslu á 30 mínútum. Tvær aflútfærslur verða í boði, annars vegar framhjóladrifin með 201 hestafla rafmótor með 265 Nm togi, og hins vegar fjórhjóladrifinn með samtals 215 hestöfl og 336 Nm togi. Framdrifsbíllinn verður 8,4 sekúndur í hundraðið en fjórhjóladrifsbíllinn 7,7 sekúndur. Í fjórhjóladrifsútgáfunni verður hægt að velja mismunandi akstursstillinga fyrir akstur í snjó eða torfærum.

Með nýjum rafbílaundirvagni kemur ný innrétting með stórum upplýsingaskjá í miðjustokki.

Nýi bíllinn kemur á nýja eTNGA rafbílaundirvagninum sem hannaður var í samstarfi við Subaru. Þess vegna verður tæknibúnaður bílsins með nýjum hætti og sjá má á innréttingu bílsins að kominn er nýr 7 tommu TFT skjár fyrir framan ökumann ásamt stórum upplýsingaskjá í miðjustokki sem getur uppfært hugbúnað gegnum netið. Undirvagninn á einnig að bjóða upp á gott fótarými fyrir farþega og farangursrýmið er 452 lítrar. Borinn saman við Toyota RAV4 er bZ4X 85 mm lægri en með 165 mm meira hjólhaf, enda er skögun hans mun styttri að framan og aftan.

Von er á rafstýrðu stýri í bílnum sem kynnt verður síðar fyrir þá bíla sem framleiddir eru fyrir Evrópumarkað. Kerfið kallast One Motion Grip og sér mótor um að stilla stöðu framdekkjanna í stað hefðbundins stýrisbúnaðar. Að sögn Toyota á það að auka fótarými í ökumannssæti og minnka snúning á stýrinu. Hægt verður að leggja inn pantanir fyrir bílnum í desember næstkomandi og þá verður líka verð bílsins kynnt, en áætlað er að fyrstu afhendingar hans verði strax á næsta ári.