Stjórnvöld í Íran tilkynntu í dag að þau hefðu tekið af lífi þátttakanda í yfirstandandi fjöldamótmælum í landinu í morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem aftaka á mótmælanda hefur verið opinberlega staðfest síðan mótmælin hófust í september. Íran hefur reikið á reiðiskjálfi vegna mótmælanna, sem hófust eftir að kona að nafni Jina Amini lést í haldi írönsku siðgæðislögreglunnar.

Samkvæmt vefsíðu íranska dómsmálaráðuneytisins hét maðurinn sem var líflátinn Mohsen Shekari. Hann var dæmdur til dauða fyrir að hafa „háð stríð gegn Guði“ með því að hafa ráðist á öryggislögreglu með hníf í Teheran. Aðeins var liðinn einn mánuður síðan Shekari var færður fyrir dómstóla í fyrsta sinn.

Íranskir ríkismiðlar birtu myndband af Shekari þar sem hann viðurkenndi að hann hefði veist að meðlimi Basij-öryggissveitanna með hnífi og lokað umferð um götu með mótorhjóli sínu ásamt félögum sínum. Shekari var með marblett á hálsinum og réttindahópar halda því fram að pyntingum hafi verið beitt til þess að knýja fram játningu hans.

Amnesty International hefur varað við því að minnst 21 manns eigi hættu á að vera tekin af lífi í tengslum við mótmælin og að hætta sé á því að írönsk stjórnvöld muni beita fjöldaaftökum til þess að berja mótmælin niður.