Fyrsta korn­flutninga­skipið sigldi úr höfn frá Odesa í gær­morgun eftir að Rússar og Úkraínu­menn gerðu með sér sam­komu­lag um öruggar siglingar með hveiti og korn­meti um Svarta­haf. Búist er við því að flutninga­skipið M/V Razoni komi til Bo­s­porussunds í Tyrk­landi í dag.

Vonir standa til þess að sam­komu­lagið muni létta á verð­bólgu og mat­væla­skorti í löndum sem reiða sig á inn­flutt korn. Inn­rás Rússa hefur stuðlað að al­þjóð­legri mat­væla­kreppu vegna truflana á kornút­flutningi bæði frá Úkraínu og Rúss­landi og hefur valdið á­hyggjum af mögu­legum hungur­sneyðum í löndum sem talin eru í á­hættu­hópum.

Samningurinn var gerður þann 22. júlí síðast­liðinn en efa­semdir komu fljótt fram um fram­kvæmd hans þegar Rússar gerðu árás á Odesa nánast um leið og hann hafði verið undir­ritaður. Verði samningnum fram­fylgt þykir það fram­fara­spor í því að sporna við af­leiðingum stríðsins í Úkraínu á heims­byggðina.

António Guter­res, aðal­ritari Sam­einuðu þjóðanna, sagði skipið bera milljónum fólks von og kallaði brott­för þess „gríðar­mikið sam­eigin­legt af­rek.“