Fyrsta kornflutningaskipið sigldi úr höfn frá Odesa í gærmorgun eftir að Rússar og Úkraínumenn gerðu með sér samkomulag um öruggar siglingar með hveiti og kornmeti um Svartahaf. Búist er við því að flutningaskipið M/V Razoni komi til Bosporussunds í Tyrklandi í dag.
Vonir standa til þess að samkomulagið muni létta á verðbólgu og matvælaskorti í löndum sem reiða sig á innflutt korn. Innrás Rússa hefur stuðlað að alþjóðlegri matvælakreppu vegna truflana á kornútflutningi bæði frá Úkraínu og Rússlandi og hefur valdið áhyggjum af mögulegum hungursneyðum í löndum sem talin eru í áhættuhópum.
Samningurinn var gerður þann 22. júlí síðastliðinn en efasemdir komu fljótt fram um framkvæmd hans þegar Rússar gerðu árás á Odesa nánast um leið og hann hafði verið undirritaður. Verði samningnum framfylgt þykir það framfaraspor í því að sporna við afleiðingum stríðsins í Úkraínu á heimsbyggðina.
António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði skipið bera milljónum fólks von og kallaði brottför þess „gríðarmikið sameiginlegt afrek.“