Óskarsverðlaun-Hildur Guðnadóttir

Þann 10. febrúar árið 2020 hlaut Hildur Guðnadóttir Óskarsverðlaun fyrst Íslendinga. Verðlaunin hlaut Hildur fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker. Hildur var einungis fjórða konan í þá 92 ára sögu Óskarsins til að hljót verðlaunin fyrir frumsamda tónlist.

Hildur hefur unnið til fjölda virtra verðlauna fyrir störf sín, til að mynda Grammy, Emmy og BAFTA.

Hildur Guðnadóttir.
Fréttablaðið/Getty

Sigldi til Kína- Árni Magnússon

Árið 1760 kom Árni Magnússon Kanton í Kína en þangað sigldi hann fyrstur Íslendinga. Hann fæddist árið 1729 á Geitastekk í Dölum og var samkvæmt manntali Íslendinga kominn aftur heim til Íslands árið 1801. Þegar hann kom heim hafði hann meðal annars barist gegn Tyrkjum á Miðjarðarhafi.

Árni sagði að í Kína væri enginn vetur, heldur eilíft sumar. Dagurinn væri tólf klukkustundir og nóttin líka. Mikið væri um ávexti, fólkið gengi um í víðum buxum úr silki og konurnar væru í afar litlum járnskóm, svo litlum að þeir pössuðu átta ára gömlu barni.

Kanton í Kína.
Mynd/Aðsend

Lauk prófi í listfræði- Selma Jónsdóttir

Selma Jónsdóttir var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi í listfræði. Hún fæddist 22. ágúst árið 1917 og lést þann 5. júlí 1987. Selma lauk BA-prófi í listfræði frá Columbia háskóla í New York árið 1944. Eftir að hún klárað grunnnám stundaði Selma meistara nám við sama skóla í eitt ár og síðar við Warburg Institute í London á árunum 1946–1948.

Hún lauk M.A.- prófi árið 1949 og vakti ritgerð hennar mikla athygli bæði hér á landi sem og erlendis. Selma varð síðar fyrsta konan sem hlaut doktorsnafnbót frá Háskóla Íslands.

Selma Jónsdóttir

Járnkarl- Sigurður Örn Ragnarsson

Sigurður Örn Ragnarsson varð fyrsti Íslendingurinn til að vinna heildarkeppnina í járnkarli (e. Ironman) þegar hann kom fyrstur í mark í keppninni í Barcelona fyrstu helgina í október á síðasta ári.

Sigurður keppti fyrir hönd Breiðabliks og kom í mark á 8:42:01 og var sex mínútum á undan næsta manni.

Í járnkarli er synt 3,8 kílómetrar í opnu vatni, hjólað 180 kílómetra og að lokum hlaupið heilt maraþon. Sigurður synti á 49;40, hjólaði á 4:30:10 og hljóp maraþonið að lokum á 3:14:15.

Sigurður Örn Ragnarsson
Fréttablaðið/Getty

Út í geim – Bjarni Tryggvason

Bjarni Tryggvason fór fyrstur Íslendinga út í geim. Bjarni fæddist á Íslandi 21. september árið 1945, þegar hann var sjö ára gamall flutti hann með foreldrum sínum til Vancouver í Kanada.

Árið 1997 fór Bjarni út í geim þar sem hann varið tólf dögum. Hann sinnti að auki rannsóknum og kennslu á sviði loftaflsfræði, straumfræði, stærðfræði og hönnun kerfa fyrir geimferðir. Þá vann einnig hann við flugvélaprófanir og -þjálfun.

Bjarni lést 6. apríl á síðasta ári, 76 ára að aldri.

NBA-Pétur Guðmundsson

Pétur Karl Guðmundsson spilaði fyrstur Íslendinga og evrópskra körfuknattleiksmanna til að vera valinn í NBA lið í nýliðavali. Hann er fæddur í Reykjavík 30. október árið 1958 og það var árið 1981 sem hann var valinn í NBA og í kjölfarið samdi hann við Portland Trail Blazers. Seinna lék hann með Los Angeles Lakers og San Antonio Spurs.

Pétur, sem er 218 sentímetra hár, var einnig atvinnumaður í Argentínu í stuttan tíma og í Englandi. Með Los Angeles Lakers spilaði Pétur með leikmönnum eins Kareem Abdul Jabbar og Magic Johnson.

Pétur Guðmundsson.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ólympíugull- Sigurrós Karlsdóttir

Sigurrós Karlsdóttir var einungis fimmtán ára gömul þegar hún vann gull á ólympíuleikum fatlaðra fyrst Íslendinga. Á sama tíma sló Sigurrós heimsmet í 50 metra bringusundi.

Sigurrós er fædd á Akureyri og gullið vann hún á ólympíuleikunum í Arnheim í Hollandi árið 1980. Á Sigurrósu vantar báða handleggi fyrir neðan olnboga en tími hennar í 50 metra sundinu var 1.06.99 mínútur. Keppendur á Ólympíuleikunum árið 1980 voru 2.400 frá 43 þjóðlöndum.

Sigurrós Karlsdóttir.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari