Rússnesk herþota virðist hafa snert hreyfil 30 milljóna dala bandarísks dróna yfir Svartahafi á þriðjudaginn. Var drónanum nauðlent á alþjóðlegu hafsvæði.

Er þetta í fyrsta skipti sem árekstur verður milli herja þessara stórvelda eftir innrásina í Úkraínu.

John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, segir það ekki óalgengt að herþotur annarra ríkja fljúgi þetta nálægt bandarískum drónum.

Það sem hafi gert þetta atvik óeðlilegt sé hversu kæruleysislegt og ófagmannlegt það hafi verið af hálfu flugmanna rússnesku þotunnar.

Bandaríkjamenn segja flugmann MQ-9 drónans hafa ákveðið að nauðlenda eftir að rússnesk Su-27 herþota rakst í hreyfil hans og hellti yfir hann eldsneyti í miðju flugi.

Dróninn hafi tekið á loft frá herstöð í Rúmeníu og verið að sinna tíu klukkutíma hefðbundnu eftirlitsverkefni.

Sérfræðingar segja að Reaper-dróninn geti flogið í 15 þúsund metra hæð. Sé hann búinn hátæknibúnaði og geti séð langt inn á Krímskaga.

Samuel Charap, pólitískur sérfræðingur hjá bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni RAND, segir að rússneska herþotan hafi beitt svokallaðri þvingunartaktík sem felist í að beita ákveðinni hernaðaraðgerð án þess að framkvæma árás. Í skýrslu sem stofnunin gaf út árið 2020 greindi hún meðal annars frá því að slíkar aðferðir væru algengar hjá rússneska hernum.

Rússneska ríkisstjórnin segir að ákvörðunin um að sækja drónann eða ekki úr Svartahafi liggi hjá varnarmálaráðuneyti landsins.

„Þetta er ákvörðun fyrir herinn. Ef þeir telja að það þjóni öryggishagsmunum okkar í Svartahafi þá verður hann sóttur,“ segir ­Dmítríj Peskov, talsmaður yfirvalda í Kreml.