Tilraunaskot á Skylark Micro eldflaug skoska fyrirtækisins Skyrora frá Langanesi, gat ekki farið fram í gær vegna veðurs. Fyrsti skotglugginn opnaðist í gær og mun standa fram á sunnudag. Staðan verður tekin aftur í dag.

Katie Miller, verkefnastjóri hjá Skyrora, segir að mikill undirbúningur og prófanir liggi að baki eldflauginni. „Þetta snýst allt um veðrið. Það eru mörk á því hvað vindurinn getur verið mikill, ekki bara á jörðu niðri heldur alveg upp í þá hæð sem eldflaugin fer,“ segir Miller.

Hún segir að það megi heldur ekki vera of lágskýjað til að tilraunaskotið geti farið fram. „Við höfum nokkra daga sem við getum skotið eldflauginni á loft. Þannig að við erum vongóð um að finna hentugan glugga í veðrinu.“

Fari svo að ekki verði hægt að skjóta eldflauginni upp í þessum skotglugga þarf að sækja um nýjan glugga. Tilraunaskotið er liður í áhættustýringu vegna fyrirhugaðra áætlunarskota Skyrora.

Geimvísinda- og tækniskrifstofa Íslands hefur verið fyrirtækinu innan handar við undirbúning og framkvæmd verkefnisins hér á landi.

„Það er auðvitað engin geimvísindastofnun á Íslandi en það er hins vegar geimvísinda- og tæknigeiri. Hingað kemur mikið af vísindamönnum og það er fullt af fyrirtækjum sem tengjast þessu,“ segir Atli Þór Fanndal, yfirmaður skrifstofunnar.

Hann segir skrifstofuna aðstoða þá aðila sem vilji koma til Íslands. Til dæmis hafi fyrir um mánuði komið hingað vísindamenn frá Evrópsku geimvísindastofnuninni (ESA) sem vinni að þróun híbýla á Mars.

„Það er okkar hlutverk að auka og þróa atvinnu- og verðmætasköpun tengda geimvísindum. Við vinnum þjónustuhlutverk sem margar geimvísindastofnanir myndu kannski annars vinna,“ segir Atli Þór.