„Þetta gengur vel og verkefnið hefur vakið nokkra athygli enda er þetta svolítið öðruvísi módel en fólk á að venjast, segir Raphaël Alexandre um Karolina Fund-söfnun fyrir vegan kaffihúsi sem hann og félagar hans í fjölþjóðlega hópnum Fraktal, stefna á að opna við Hringbraut.

„Landfræðilega komum við úr öllum áttum og erum með ólíkan bakgrunn,“ segir Raphaël um fólkið í hópnum, sem hafnar kapítalískum rekstrarmódelum, með áherslu á flatan strúktúr og lýðræði þar sem allir eru jafnir, í yfirmannslausu starfsumhverfi.

Öll sem eitt

„Við komum til dæmis frá Íslandi, Þýskalandi, Frakklandi, Afganistan, Póllandi og Spáni,“ segir Raphaël. „En við búum öll hérna og erum hluti af íslensku samfélagi,“ bætir Anna Marjankowska við og leggur áherslu á lýðræðislega hugmyndafræði hópsins.

„Við erum að skapa samstarfsvettvang þar sem allir eru jafnir og viljum breyta leikreglunum í stjórnun og rekstri fyrirtækja,“ segir Raphaël, um hugmyndina um vinnustað sem starfsfólkið stjórnar sjálft. „Skipulagið er þannig að það á þetta ekki neinn, þannig að við erum að færa okkur frá kapítalíska módelinu og hér gildir einn maður, eitt atkvæði.“

Þau koma frá ýmsum heimshornum en eru öll hluti af íslensku samfélagi. Mynd/Dani Guindo

Engir yfirmenn

„Vegna þess að við sjáum hvað er að gerast á vinnumarkaði og höfum öll á einhverjum tímapunkti verið að vinna hjá fyrirtækjum og við hötuðum það,“ segir Anna og bætir við að í raun og veru hafi það fyrst og fremst verið yfirstjórnin og yfirmenn, sem voru þyrnar í augum þeirra.

„Þannig að við ákváðum að skapa yfirmannalausan starfsvettvang eða vinnustað og ákváðum að reksturinn ætti að snúast um vegan kaffihús. Vegna þess að það kemst næst markmiðum okkar og hugmyndafræðilegri sannfæringu okkar.“

Kaffihúsið sem hópurinn stefnir að því að opna við Hringbraut 119, yrði því fyrsta lýðræðislega samvinnukaffihúsið á Íslandi, sem verður í eigu og rekið af starfsfólki félagsins.

Sjálfbær vettvangur

Anna og Raphaël segja að ákvörðunin um að opna vegan kaffihús hafi verið borðleggjandi og í algeru samræmi við hugmyndir þeirra og draum um betri heim, þar sem umhverfisvernd, mikilvægi náttúrunnar og dýranna sem í henni lifa, vega hvað þyngst.

„Þess vegna viljum við svara brýnni þörf fyrir vegan valkosti í borginni sem er líka sjálfbær vettvangur fyrir alls konar viðburði. Það er ekkert of mikið af veganstöðum í augnablikinu í Reykjavík,“ segir Anna.

„Og við viljum líka gera eitthvað fyrir nærumhverfið í leiðinni, og eftir að hafa kannað hvað helst vantar og hvernig mat fólk vill fá, varð þetta niðurstaðan. Þetta á líka að vera samkomustaður þar sem fólk getur hitt vini sína og rætt hugðarefni sín,“ segir Anna og bendir á að þau finni fyrir að slíkum stöðum fari fækkandi á Reykjavíkurkortinu og nefnir hremmingar Bíó Paradísar sem dæmi.

Margt ógert

Þegar sex dagar eru eftir af söfnun Fraktal-hópsins á Karolina Fund.com eru þau komin með 90% af þeim 7000 evrum sem þeim reiknast til að þau þurfi, svo draumurinn um vegan kaffihúsið geti ræst.

Raphaël segir að þótt allt gangi upp sé ómögulegt að segja til um hvenær þau nái að opna, þar sem óvissuþættirnir séu margir. „Við þurfum að breyta staðnum sem er verslunarhúsnæði í kaffihús og þar er mikið verk óunnið. Síðan getur tekið langan tíma að fá öll tilskilin leyfi.“