Riðuveiki hefur greinst á bænum Vallanesi í Varmahlíð í Skagafirði. Á bænum eru 370 fjár. Ekki hafði orðið vart neinna sjúkdómseinkenna eða óeðlilegra affalla en riðan greindist í sýni úr kind frá bænum við slátrun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST.  

Matvælastofnun vinur nú að undirbúningi aðgerða og öflun upplýsinga. Héraðsdýralæknir vinnur jafnframt að því að meta umfang aðgerða á búinu umfang aðgerða við þrif, sótthreinsun og förgun fjár. Málið fer því næst í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskruð.

Á þessu búi hefur veikin greinst áður, síðast árið 2007. Búið er í Húna- og Skagahólfi en riðuveiki hefur komið upp á mörgum bæjum umhverfis Varmahlíð í gegnum tíðina. Svæðið er þekkt riðusvæði og hefur veikin komið upp á tuttugu búum á undanförunum 20 árum. Síðast árið 2016 á bæjunum Stóru-Gröf ytri og Brautarholti.

Fyrsta tilfellið sem greinist á árinu

Riðan er á undanhaldi og engin tilfelli greindust á árunum 2011 til 2014. Fram til árins 2010 greindist riða á nokkrum bæjum á landinu á hverju ári. Þetta er fyrsta tilfelli sem greinist á árinu en í fyrra greindist eitt tilfelli á Norðurlandi Eystra.

Aukin áhersla hefur við lögð á að fá sýni úr fé sem drepst eða er lógað heima vegna vanþrifa, slysa eða sjúkdóma, bændur eru hvattir til að senda hausa til Keldna eða hafa samband við dýralækni til að taka sýni úr slíku fé. Þá hafa sýni verið tekin úr um það bil þrjú þúsund kindum við slátrun á ári undan farin ár.