Greint er frá því í fréttabréfi Sóttvarnalæknis sem gefið var út fyrr í þessum mánuði að þann 18. janúar síðastliðinn hafi bótúlismi verið staðfestur hjá fullorðnum einstaklingi hér á landi. Þetta er í fyrsta skipti sem slík eitrun greinist í einstaklingi hér á landi síðan árið 1983. Sjúklingurinn náði bata.

Fram kemur í umfjöllun um bótúlisma á vef Landlæknis að bótúlínumsýkilinn hafi einnig fundist í heimalöguðum súrum blóðmör. Algengustu orsakir bótúlisma eru heimalöguð matvæli eins og kjöt, fiskur, grænmeti og ávextir, sem eru oftast niðursoðin, grafin, súrsuð eða gerjuð og gjarnan í lofttæmdum umbúðum.

Sýkingar má oft rekja til lítillar söltunar eða of lítillar sýru í niðurlögðu grænmeti eða fiski. Niðursuðudósir sem virðast bunga út vegna þrýstings innan frá skyldi ekki opna þar sem sýkillinn getur stundum myndað gas inni í dósunum. Börn geta fengið bótúlisma og veikst alvarlega af því að borða hunang. Því eru foreldrar varaðir við því að gefa börnum yngri en 12 mánaða hunang.

Bótulismi er mjög sjaldgæf eitrun sem hefur aðeins greinst hér á landi þrisvar sinnum, fyrst árið 1949 þegar fjórir menn veiktust eftir neyslu súrsaðs dilkakjöts og einn þeirra lést. Aftur greindist hún 1981, þegar fjögurra manna fjölskylda veiktist, og síðast árið 1983, þegar móðir og barn veiktust eftir að hafa borðað súrt slátur sem bakterían fannst í. Öll lifðu af