Jafnaðarmenn, græningjar og frjálslyndir demókratar í Þýskalandi hafa komist að samkomulagi um að mynda nýja ríkisstjórn undir forystu Olaf Scholz, leiðtoga jafnaðarmanna og núverandi fjármálaráðherra. Scholz tekur við sem kanslari af Angelu Merkel sem hefur gegnt embættinu í ein sextán ár síðan 2005.
Flokkarnir þrír, sem hafa fengið viðurnefnið umferðaljósabandalagið vegna lita þeirra – rauðum, grænum og gulum – náðu samkomulagi eftir þriggja mánaða stífar samningaviðræður en þingkosningar fóru fram í Þýskalandi 26. september síðastliðinn.
Eitt af loforðum nýju ríkisstjórnarinnar er að stefna að því að kolanotkun verði hætt fyrir árið 2030 og Þýskaland hafi náð kolefnishlutleysi árið 2045. Robert Habeck, annar leiðtoga græningja, verður ráðherra í nýju „ofurráðuneyti“ sem fer með málefni viðskipta og umhverfisverndar.
Þá hefur stjórnin heitið því að veita einum milljarði evra í launabónus fyrir heilbrigðisstarfsmenn og að lögleiða kannabis.
Christian Lindner, leiðtogi Frjálslyndra demókrata sem, ólíkt samstarfsflokkunum, eru hægra megin miðju, verður fjármálaráðherra. Reglur um skuldahámark ríkisins verða innleiddar að nýju frá árinu 2023 til að koma í veg fyrir of mikinn hallarekstur.
Annalena Baerbock verður utanríkisráðherra fyrir hönd Græningja og Hubertus Heil verður atvinnumálaráðherra fyrir hönd Jafnaðarmanna, en hann er eini ráðherra fyrri ríkisstjórnarinnar sem heldur stöðu sinni.
Um er að ræða fyrstu þriggja flokka stjórnina í þýskri stjórnmálasögu og þá fyrstu sem setur málefni loftslagsbreytinga í forgang í öllum ráðuneytum. Gert er ráð fyrir að ný ríkisstjórn taki við 6. desember eftir að flokksstofnanir leggja blessun sína yfir stjórnarsamstarfið.