Jafnaðar­menn, græningjar og frjáls­lyndir demó­kratar í Þýska­landi hafa komist að sam­komu­lagi um að mynda nýja ríkis­stjórn undir for­ystu Olaf Scholz, leið­toga jafnaðar­manna og núverandi fjármálaráðherra. Scholz tekur við sem kanslari af Angelu Merkel sem hefur gegnt em­bættinu í ein sex­tán ár síðan 2005.

Flokkarnir þrír, sem hafa fengið viður­nefnið um­ferða­ljósa­banda­lagið vegna lita þeirra – rauðum, grænum og gulum – náðu sam­komu­lagi eftir þriggja mánaða stífar samninga­við­ræður en þing­kosningar fóru fram í Þýska­landi 26. septem­ber síðast­liðinn.

Eitt af lof­orðum nýju ríkis­stjórnarinnar er að stefna að því að kola­notkun verði hætt fyrir árið 2030 og Þýska­land hafi náð kol­efnis­hlut­leysi árið 2045. Robert Habeck, annar leið­toga græningja, verður ráð­herra í nýju „ofur­ráðu­neyti“ sem fer með mál­efni við­skipta og um­hverfis­verndar.

Þá hefur stjórnin heitið því að veita einum milljarði evra í launa­bónus fyrir heil­brigðis­starfs­menn og að lög­leiða kanna­bis.

Christian Lindner, leið­togi Frjáls­lyndra demó­krata sem, ó­líkt sam­starfs­flokkunum, eru hægra megin miðju, verður fjár­mála­ráð­herra. Reglur um skulda­há­mark ríkisins verða inn­leiddar að nýju frá árinu 2023 til að koma í veg fyrir of mikinn halla­rekstur.

Anna­lena Baer­bock verður utan­ríkis­ráð­herra fyrir hönd Græningja og Hubertus Heil verður at­vinnu­mála­ráð­herra fyrir hönd Jafnaðar­manna, en hann er eini ráð­herra fyrri ríkis­stjórnarinnar sem heldur stöðu sinni.

Um er að ræða fyrstu þriggja flokka stjórnina í þýskri stjórn­mála­sögu og þá fyrstu sem setur mál­efni lofts­lags­breytinga í for­gang í öllum ráðu­neytum. Gert er ráð fyrir að ný ríkis­stjórn taki við 6. desember eftir að flokks­stofnanir leggja blessun sína yfir stjórnar­sam­starfið.