Íbúar Chile gengu til kosninga um helgina til þess að kjósa fulltrúa á stjórnlagaþing sem falið verður að rita nýja stjórnarskrá fyrir landið. Boðað var til kosninganna eftir að landsmenn samþykktu með 78 prósentum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu í október að stefna að nýrri stjórnarskrá fyrir landið og að fela stjórnlagaþingi að semja hana.

Stjórnlagaþingið er afrakstur fjöldamótmælanna sem fóru fram í Chile árið 2019. Þau mótmæli hófust vegna hækkunar á fargjaldi í neðanjarðarlestakerfi höfuðborgarinnar en fóru brátt að beinast að félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði, lágum launum og háum framfærslukostnaði í landinu.

Mótmælin leiddu til þess að ríkisstjórnin féllst á að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem landsmenn voru spurðir annars vegar hvort þeir vildu nýja stjórnarskrá og hins vegar hvort hún skyldi alfarið samin af kjörnu stjórnlagaráði eða af þingi landsins í samráði við stjórnlagaráð. Vegna kórónaveirufaraldursins fór þjóðaratkvæðagreiðslan ekki fram fyrr en í október 2020 og kusu landsmenn þá með afgerandi meirihluta að stjórnlagaráði skyldi falið að semja nýja stjórnarskrá. Kjörsókn landsmanna í atkvæðagreiðslunni nam rúmum fimmtíu prósentum.

Núverandi stjórnarskrá Chile er hluti af arfleifð einræðisstjórnar Augusto Pinochet. Hún var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1980 en var samin án aðkomu landsmanna af hópi sem Pinochet skipaði. Gagnrýnendur stjórnarskrárinnar telja hana hafa stuðlað að ójöfnuði í landinu, meðal annars með því að takmarka möguleika á að auðlindir á borð við steinefni og fiskimið landsins séu nýttar í almannaþágu. Ólíkt mörgum öðrum stjórnarskrám heimsálfunnar skilgreinir stjórnarskrá landsins jafnframt ekki tiltekin félagsleg réttindi á borð við kvenréttindi, réttindi frumbyggja eða vatnsréttindi.

Aukið jafnrétti

Stjórnlagaþingið er skipað 155 fulltrúum og er kveðið á um jafnt kynjahlutfall þeirra á meðal samkvæmt frumvarpi sem þing Chile samþykkti þann 4. mars. Ef stjórnarskráin tekur gildi verður hún sú fyrsta sinnar tegundar sem samin er af jöfnum hópi karla og kvenna. Jafnframt voru settir kvótar á fatlaða frambjóðendur þannig að fatlaðir yrðu minnst fimm prósent frambjóðenda á hverjum kjörlista.

Samkvæmt tölum Servel (sp. Servicio Electoral de Chile) fékk hægrisinnaða kosningabandalagið Vamos por Chile (ísl. Áfram Chile), sem er tengt núverandi forseta Sebastián Piñera, flest atkvæði, eða 20,56 prósent, og kemur til með að fá 37 fulltrúa á stjórnlagaþingið. Bandalag vinstrimanna og græningja, Apruebo Dignidad (ísl. Ég kýs reisn), fékk 18,74 prósent og 28 fulltrúa. Lista del Apruebo (ísl. Sam­þykktarlistinn), bandalag mið- og miðvinstriflokka, hlaut 14,46 prósent og 25 fulltrúa. Ýmir smærri framboð fengu einnig kjörna fulltrúa.

Stjórnlagaþingið mun sitja í níu mánuði til að semja nýju stjórnarskrána. Heimild er til að framlengja kjörtímabil þess einu sinni um þrjá mánuði ef þörf krefur. Að því loknu verður kallað til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem landsmenn fá færi á að samþykkja eða hafna nýju stjórnarskránni. Áætlað er að sú atkvæðagreiðsla verði haldin á fyrri helmingi ársins 2022. Í millitíðinni verða haldnar þing- og forsetakosningar í landinu í nóvember næstkomandi