Gamithra Marga er fyrsta stelpan til að vera í vinningsliði Forritunarkeppni framhaldsskólanna allt frá stofnun fyrir 20 árum. Hún deilir fyrsta sæti með Bjarna Thor Kárasyni í liði þeirra Bits Please en þau eru nemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum á Tröllaskaga.

Gamithra flutti til Íslands frá Eistlandi þegar hún var 17 ára.

„Ég pakkaði niður dótinu mínu í tvo bakpoka, sagði skólanum mínum að búast ekki við að sjá mig aftur og flutti til Íslands,“ segir Gamithra.

Gamithra fékk styrk frá skólanum til að taka þátt í forritunarkeppninni en hún vinnur með skóla vegna framfærslukostnaðar á Íslandi. Hún segir kerfið á Íslandi virka fyrir sig. Hún geti klárað námið á sínum eigin forsendum í fjarnámi sem hún segir þægilegra en venjulegur dagskóli.

„Dagskóli hefur aldrei verið fyrir mig, ég þarf að geta lært á mínum eigin hraða; einnig gerir það miklu auðveldara að vinna með skóla þar sem fjölskyldan mín í Eistlandi hefur aldrei haft efni á að aðstoða mig með brjálaðan íslenskan framfærslukostnað.“

Gamithra er flutt aftur til fjölskyldu sinnar í Eistlandi tímabundið og klárar menntaskólann í fjarnámi.

Fréttin hefur verið uppfærð.