Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, hefur fengið umboð til þess að ganga frá kaupum á Hafnargötu 42 frá byggðarráði Múlaþings. Er þetta fyrsta húsið sem sveitarfélagið kaupir þar sem íbúum hefur verið bannað að búa áfram.

„Þegar sú ákvörðun er tekin að meina fólki að búa þarna, sem var ekki auðveld ákvörðun, þá liggur fyrir að okkur ber að leysa eignirnar til okkar. Þarna er komið samkomulag og þá er málið klárað,“ segir Björn.

Alls verða keyptar sex íbúðir en í Hafnargötu 42 eru tvær íbúðir og segir Björn að hann sé að vinna að því að funda með öllum húseigendum. „Þegar það eru komnar niðurstöður þá er það afgreitt. Ég á í viðræðum við húseigendur og vonandi klárast það í næstu viku. Sums staðar klárast þetta strax en annars staðar tekur það lengri tíma,“ segir Björn.