Í dag var tekin skóflustunga að nýju Landspítalanum við Hringbraut. Ráðherrar, ásamt fulltrúum félaga, hagsmunasamtaka og stofnana tóku fyrstu skóflustungu nýs meðferðarkjarna. Áætlað er að meðferðarkjarninn verði tekinn í notkun árið 2024.

Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í Hringbrautarverkefninu og gegnir lykilhlutverki í starfseminni. Meðferðarkjarninn er hugsaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss. Kjarninn tengist öðrum starfseiningum spítalans með tengigöngum og brúm. Hann verður á sex hæðum auk tveggja hæða kjallara.

„Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Dagurinn í dag markar tímamót í heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Nýtt sjúkrahús mun gerbylta allri aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, ekki síst fyrir sjúklinga, starfsmenn og aðstandendur,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í tilkynningu.

Viðstaddir skóflustunguna voru einnig fyrrverandi heilbrigðisráðherrar auk fjölmargra annarra gesta. 

„Við sem stöndum að Hringbrautarverkefninu erum stolt á þessum degi nú þegar þegar jarðvinna vegna byggingar meðferðarkjarna hefst. Áætlanir okkar eru þær að byggingu spítalans verði lokið 2024 í samræmi við fjármálaáætlun Alþingis 2019-2023,“ segir Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri nýs Landspítala við Hringbraut.

Aðalhönnuður meðferðarkjarnans er Corpus3 hópurinn en Spital-hópurinn sér um gatna-, veitna- og lóðahönnun.

Sjá einnig: Nýr með­ferðar­kjarni við nýjan Land­spítala og Nýtt rann­sóknar­hús verður hjarta nýs Land­spítala