Guð­jón Sigurðs­son segir frá því að hann hafi setið fastur á um­ferðar­eyju eftir að strætó hafi lagt fyrir einu niður­tektinni á eyjunni, bíl­stjórinn neitaði að færa vagninn og Guð­jón sat því fastur þangað til að strætóinn ók sína leið.

„Fyrsta skiptið í strætó í ca. fjöru­tíu ár endaði í hremmingum í Mjódd,“ segir Guð­jón, sem er for­maður MND á Ís­landi, í til­kynningu sem hann sendi til fjöl­miðla og Strætó bs.

„Ég vakti at­hygli bíl­stjórans á þessu en hún virti mig ekki til við­lits heldur hélt á­fram í símanum,“ segir Guð­jón.

Guð­jón segir frá því að hann hafi þurft að bíða fastur á eyjunni þangað til að strætóinn ók í burtu. Hann segist hafa leitað alla um­ferðar­eyjuna að niður­tekt en einungis ein hefði verið á eyjunni, þeirri sem strætó lagði fyrir.

„Á­standið á þessu Mjóddar­svæði er mjög fjand­sam­legt hreyfi­hömluðum og ég krefst úr­bóta á svæðinu strax. Öllu svæðinu með til­liti til hreyfi­hamlaðra og blindra sem eru þarna bein­línis í lífs­hættu,“ segir Guð­jón.

Planið ekki heppi­legt hreyfi­hömluðu fólki

„Því miður er planið ekki heppi­legt hreyfi­hömluðu fólki og er mjög þröngt, bæði fyrir við­skipta­vini, strætis­vagna og vagn­stjóra,“ segir Sig­ríður Harðar­dóttir, sviðs­stjóri mann­auðs- og gæða­sviðs Strætó bs. í skrif­legu svari til Guð­jóns.

Sig­ríður segir vagn­stjóra reyna eftir best getu að að­stoða far­þega í þessum að­stæðum. „En það var ekki raunin í þínu til­viki og munum við ræða það við við­komandi vagn­stjóra,“ bætir hún við.

„Ég vona að með sam­stilltu á­taki Reykja­víkur­borgar og Strætó verði unnt að bæta að­stöðuna í Mjódd,“ segir Sig­ríður.