Hin tólf ára Hanyie og faðir hennar, Abrahim Maleki, hafa fengið stöðu flóttafólks á Íslandi og fá þar af leiðandi búsetu hér. Þau komu hingað til lands í desember 2016, og var tilkynnt rúmlega hálfu ári síðar að þau fengju ekki hér á landi. Þeirri ákvörðun hefur nú verið snúið við og fengu feðginin loks staðfest hjá Útlendingastofnun í dag að þau fái að vera hér áfram. 

„Fyrir tveimur vikum fóru þau á fund hjá Útlendingastofnun til að meta hvort þau væru flóttamenn. Eins og ferlar gera ráð fyrir þá var barátta að fá þann fund, en svo var auðvitað nokkuð ljóst að þau eru flóttamenn og það var staðfest í dag. Það tryggir þeim þá atvinnuréttindi og dvalarleyfi og þess háttar,“ segir Guðmundur Karl Karlsson, sjálfboðaliði hjá Solaris, samtökum fyrir hælisleitendur og flóttamenn á Íslandi sem hefur aðstoðað þau í öllu ferlinu.

Guðmundur segir að Abrahim hafi verið að jafna sig á fæti en hann sé orðinn góður í dag. „Hann sagði mér í dag að hann væri hættur að fá verki í fæturna. Það voru svona önnur gleðitíðindi í dag.

Hanyie hefur gengið í skóla í Keflavík og mun halda því áfram „Hún er búin að vera þar síðan hún kom og er búin að eignast óteljandi vini.“

Guðmundur segir að þau séu nú að reyna að finna út úr sínum næstu skrefum. „Þau þurfa nú að finna sér íbúð og hann ætlar að finna sér vinnu. Hann stefnir að því að taka ökuréttindi á Íslandi og langar að vera bílstjóri. Núna tekur auðvitað alvaran við, því ekki er sami stuðningur varðandi húsnæði og annað. Nú þurfa þau að sjá fyrir sér sjálf og þau eru að leggjast yfir þau plön núna.“

Guðmundur sagði að þau væru enn að átta sig á gleðifréttum dagsins, en vissi ekki hvort eða hvernig þau ætluðu að fagna í dag. 

„Þau allavega hættu ekki að brosa og það fyrsta sem hún sagði við mig þegar við komum út var „Mér finnst ég svo örugg“,“ segir Guðmundur Karl í samtali við Fréttablaðið í dag. 

Komu í desember 2016

Hanyie og faðir hennar, Abrahim, komu til Íslands í desember árið 2016. Foreldrar hennar koma bæði frá Afganistan, en móðir hennar yfirgaf hana ári síðar. Hanyie hefur því verið á flótta með föður sínum síðan þá. Þau hafa búið í Íran, Tyrklandi og á Grikklandi, áður en þau komu hingað til Íslands. Hanyie fæddist í flóttamannabúðum í Íran árið 2005, og hefur verið á flótta allt sitt líf.

Síðasta sumar var þeim tilkynnt að þau myndu ekki fá hæli hér á landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar og senda ætti þau líklegast til Þýskalands. Þaðan þótti nær fullvíst að þau yrðu send til Afganistan. Í kjölfarið var lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem þess var óskað að Hanyie og faðir hennar fengju íslenskan ríkisborgararétt og vísað var til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu. 

Í sáttmálanum er skýrt kveðið á um að ávallt skuli það sem barni er fyrir bestu hafa forgang þegar ákvarðanir eru teknar um eða fyrir það. Frumvarpið var síðan ekki tekið fyrir vegna þess að þingi var slitið og var ekki lagt aftur fram á nýju þingi. 

Guðmundur Karl birti færslu á Facebook síðu sinni í dag, með gleðifréttunum. Færslan er birt með hans leyfi.