Aldrei fór ég suður verður fyrsta tón­listar­há­­tíðin sem haldin verður í raun­heimi en ekki raf­­rænt frá því að fyrstu sam­komu­tak­­markanir voru settar á í mars í fyrra. Það er við­eig­andi því fyrir ári síðan varð há­­tíðin einnig sú fyrsta sem þurfti að hætta við að vera með al­vöru­tón­leika og halda þá raf­rænt í staðinn.

Skipuleggjendur há­tíðarinnar sendu frá sér til­kynningu um þetta í gær. Hún verður haldin yfir páskana eins og vana­lega, eða annan og þriðja apríl í ár. „Við erum alveg í skýjunum hérna með að hafa tekið þessa á­kvörðun. Hér verður lifandi tón­list með lifandi fólki í plássinu okkar hér fyrir vestan,“ segir tón­listar­maðurinn og Ís­firðingurinn Örn Elías Guð­munds­son, eða Mugi­son, sem er svo­kallaður rokk­stjóri Aldrei fór ég suður í ár.

Há­tíðin verður þó með nokkuð breyttu sniði; í fyrsta skipti verða gestirnir í sætum en ekki „í einni kös kóf­sveittir“ eins og vana­lega að sögn Arnar. Hún verður því haldin í menningar­mið­stöð Ís­firðinga, Edin­borgar­húsinu, en ekki í skemmu líkt og síðustu ár. Bæði kvöld verða þó haldnir tón­leikar og koma sjö lista­menn fram hvort kvöld líkt og vana­lega.

„Það sem er auð­vitað ó­víst er hvað það verða margir í salnum,“ segir Örn. Undir gildandi sam­komu­tak­mörkunum er heimilt að taka við 150 tón­leika­gestum. Hann vonar þó að búið verði að rýmka reglurnar eitt­hvað áður en há­tíðin hefst en tekur fram að ef það verði ekki gert breyti það ekki öllu.

Ekki þarf að kaupa sig inn á há­tíðina og hefur því aldrei verið haldið al­menni­lega utan um gesta­fjölda hennar í venju­legu ár­ferði. „En við höfum á­ætlað að þetta séu vana­lega svona tvö þúsund manns sem hafa verið á tón­leikunum.“

„Það verða auð­vitað færri í ár. En við erum núna að reyna að kokka upp eitt­hvert kerfi til að ná hreyfingu á fólk; að fólk gæti kannski bara verið hjá okkur í klukku­tíma í senn og þannig kæmust fleiri á tón­leika,“ segir Örn.


Kerfi eins og í ræktinni

Skipuleggjendur há­tíðarinnar eru á fullu að hugsa upp slíkar lausnir. Þetta kerfi sem hann lýsir hljómar ekki ó­svipað því sem á­skrif­endur líkams­ræktar­stöðva hafa kynnst upp á síð­kastið; menn skrá sig fyrir fram og mæta að­eins í klukku­tíma inn í rýmið.

„Ég held að það væri sniðugast. Þá þyrftu menn að skrá sig og sækja um að fá að koma á tón­leika. Segjum sem svo að þig langi kannski mest að sjá ein­hvern einn tón­listar­mann þá myndirðu sækja um að fá að koma klukku­tímann sem hann er að spila á. Síðan yrði dregið og ef þú ert dreginn út fengirðu kannski að koma með átta vini þína með þér,“ út­skýrir Örn.

Vana­lega flykkjast um fimm þúsund manns ár­lega til Ísa­fjarðar yfir páskana. Þeir verða ó­lík­lega svo margir í ár.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Þá myndirðu þurfa að senda okkur kenni­tölu og síma­númer hjá öllum í hópnum og yrðir svo um­sjónar­maður hópsins. Þannig ef við erum bara með leyfir fyrir 150 gestum í salnum værum við í raun bara með 15 tengi­liði meðal á­horf­enda sem myndi auð­velda þetta allt mjög.“

Hann segir að skipu­leggj­endur há­tíðarinnar séu komnir í sam­bönd við sótt­varna­yfir­völd. „Það ein­faldar okkur mikið að vera komin með þetta inn í sal, upp á öll leyfi og slíkt. Við erum núna að skella upp fyrstu drögum að skipu­lagi. Svo náttúru­lega setja sótt­varna­yfir­völd bara út á þau ef eitt­hvað er að og við breytum þessu ná­kvæm­lega eins og þau segja okkur að gera.“

Listamenn 2021

ALDREI Í ALVÖRU! ERTU EKKI AÐ GRÍNAST?! #ALDREIAFTUR

Posted by Aldrei fór ég suður on Friday, 5 March 2021