Aldrei fór ég suður verður fyrsta tónlistarhátíðin sem haldin verður í raunheimi en ekki rafrænt frá því að fyrstu samkomutakmarkanir voru settar á í mars í fyrra. Það er viðeigandi því fyrir ári síðan varð hátíðin einnig sú fyrsta sem þurfti að hætta við að vera með alvörutónleika og halda þá rafrænt í staðinn.
Skipuleggjendur hátíðarinnar sendu frá sér tilkynningu um þetta í gær. Hún verður haldin yfir páskana eins og vanalega, eða annan og þriðja apríl í ár. „Við erum alveg í skýjunum hérna með að hafa tekið þessa ákvörðun. Hér verður lifandi tónlist með lifandi fólki í plássinu okkar hér fyrir vestan,“ segir tónlistarmaðurinn og Ísfirðingurinn Örn Elías Guðmundsson, eða Mugison, sem er svokallaður rokkstjóri Aldrei fór ég suður í ár.
Hátíðin verður þó með nokkuð breyttu sniði; í fyrsta skipti verða gestirnir í sætum en ekki „í einni kös kófsveittir“ eins og vanalega að sögn Arnar. Hún verður því haldin í menningarmiðstöð Ísfirðinga, Edinborgarhúsinu, en ekki í skemmu líkt og síðustu ár. Bæði kvöld verða þó haldnir tónleikar og koma sjö listamenn fram hvort kvöld líkt og vanalega.
„Það sem er auðvitað óvíst er hvað það verða margir í salnum,“ segir Örn. Undir gildandi samkomutakmörkunum er heimilt að taka við 150 tónleikagestum. Hann vonar þó að búið verði að rýmka reglurnar eitthvað áður en hátíðin hefst en tekur fram að ef það verði ekki gert breyti það ekki öllu.
Ekki þarf að kaupa sig inn á hátíðina og hefur því aldrei verið haldið almennilega utan um gestafjölda hennar í venjulegu árferði. „En við höfum áætlað að þetta séu vanalega svona tvö þúsund manns sem hafa verið á tónleikunum.“
„Það verða auðvitað færri í ár. En við erum núna að reyna að kokka upp eitthvert kerfi til að ná hreyfingu á fólk; að fólk gæti kannski bara verið hjá okkur í klukkutíma í senn og þannig kæmust fleiri á tónleika,“ segir Örn.
Kerfi eins og í ræktinni
Skipuleggjendur hátíðarinnar eru á fullu að hugsa upp slíkar lausnir. Þetta kerfi sem hann lýsir hljómar ekki ósvipað því sem áskrifendur líkamsræktarstöðva hafa kynnst upp á síðkastið; menn skrá sig fyrir fram og mæta aðeins í klukkutíma inn í rýmið.
„Ég held að það væri sniðugast. Þá þyrftu menn að skrá sig og sækja um að fá að koma á tónleika. Segjum sem svo að þig langi kannski mest að sjá einhvern einn tónlistarmann þá myndirðu sækja um að fá að koma klukkutímann sem hann er að spila á. Síðan yrði dregið og ef þú ert dreginn út fengirðu kannski að koma með átta vini þína með þér,“ útskýrir Örn.

„Þá myndirðu þurfa að senda okkur kennitölu og símanúmer hjá öllum í hópnum og yrðir svo umsjónarmaður hópsins. Þannig ef við erum bara með leyfir fyrir 150 gestum í salnum værum við í raun bara með 15 tengiliði meðal áhorfenda sem myndi auðvelda þetta allt mjög.“
Hann segir að skipuleggjendur hátíðarinnar séu komnir í sambönd við sóttvarnayfirvöld. „Það einfaldar okkur mikið að vera komin með þetta inn í sal, upp á öll leyfi og slíkt. Við erum núna að skella upp fyrstu drögum að skipulagi. Svo náttúrulega setja sóttvarnayfirvöld bara út á þau ef eitthvað er að og við breytum þessu nákvæmlega eins og þau segja okkur að gera.“
Listamenn 2021ALDREI Í ALVÖRU! ERTU EKKI AÐ GRÍNAST?! #ALDREIAFTUR
Posted by Aldrei fór ég suður on Friday, 5 March 2021