Bandaríska flug- og geimvísindastofnunin, NASA, hefur nú í fyrsta sinn deilt myndbandi af lendingunni á Mars sem átti sér stað fyrir nokkrum dögum.

Í myndbandinu er hægt að endurupplifa lendinguna út frá myndavélum sem voru um borð í sérstökum geimjeppa sem var hannaður fyrir förina.

Jeppinn lenti á Mars fyrir fjórum dögum síðan eftir að hafa ferðast 471 milljón kílómetra á 203 dögum, en farinu var skotið upp þann 30. júlí 2020.

Jeppinn er hannaður af NASA í samstarfi við kanadíska fyrirtækið Mission Control en gervi-jeppi var prófaður hér á landi sumarið 2019 og komu nemendur Háskólans í Reykjavík að rannsókninni.